133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:27]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg greinilegt að formaður Framsóknarflokksins ætlar alls ekki að taka rökum eða sönsum í þessu máli.

Ef ekkert er að marka yfirlýsinguna eða listann, eins og formaður Framsóknarflokksins heldur fram, hvers vegna hefur ríkisstjórnin þá ekki gert neitt í því að þessi listi yrði afmáður af heimasíðu Hvíta hússins? Hvernig stendur á því að ríkisstjórn Íslands stendur þá ekki fyrir því að leiðrétta þennan skelfilega misskilning ef hann er fyrir hendi? Fjögur ár eru liðin og ekkert hefur verið gert. Ekki er annað að sjá en að yfirlýsingin sé enn í fullu gildi, hún er algjörlega ótímasett. Engin tímamörk eru tilgreind í yfirlýsingunni, engar dagsetningar, ekki neitt. Það er a.m.k. ekki birt á listanum sem Bush og starfsmenn hans hafa birt á heimasíðu Hvíta hússins. Vel má vera að einhver önnur skjöl finnist, ég skal ekkert um það segja. Sennilega eru þau stimpluð í bak og fyrir sem leyndarmál. Þau eru alveg örugglega ekki til sýnis fyrir utanríkisnefnd Alþingis. Við höfum séð það í þessu máli að ríkisstjórnin treystir ekki utanríkisnefnd Alþingis. Ekki bar hún málið undir hana þó að hún hefði, að mínu mati, átt að gera það lögum samkvæmt. Það var ekki gert.

Nei, þetta er engin fréttatilkynning, þetta er stuðningsyfirlýsing eins og kemur mjög greinilega fram á þeim pappírum sem ég hef fyrir framan mig. Varaformaður Framsóknarflokksins fékk ljósrit hjá mér rétt áðan. Ég reikna með að hann geti sýnt formanni sínum skjölin sem ég hef. Þetta eru engin leyniskjöl, það er ekkert mál að finna þetta á netinu. Þetta er þarna enn þá og verður þarna sjálfsagt áfram því að ég hef enga trú á því að ríkisstjórn Íslands hafi nokkra döngun í sér til þess að hafa samband við Hvíta húsið í Washington og biðja um að þetta verði fjarlægt, jafnvel þó að þetta sé eintóm og helber vitleysa eins og formaður Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) reynir ítrekað að halda hér fram.