133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:29]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta grafalvarlega mál snýst ekki um það hvernig skjöl eru flokkuð, hvað þau heita eða hvernig maður kýs að líta á heiti þeirra fjórum árum eftir gjörninginn en þannig má skilja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formann Framsóknarflokksins, sem greinilega hefur fundið leið út úr þessu vonda máli eða þykist hafa fundið leið út úr þessu erfiða máli fyrir Framsóknarflokkinn, leið fréttatilkynningar Hvíta hússins sem mun þá ekki koma okkur nokkuð við að því er mér virðist.

Í þessum mánuði eru liðin fjögur ár frá því að innrásin var gerð í Írak. Það vissu allir fyrir fjórum árum í hvað stefndi, það vissu allir sem fylgdust með veturinn 2002–2003, í marga mánuði áður en innrásin var gerð og meira en ári fyrr, að verið var að undirbúa þessa innrás með öllum ráðum. Staðreyndin var sú að Bandaríkjastjórn ætlaði að gera þessa innrás. Hún ætlaði reyndar að fá hana samþykkta í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og gerði margar tilraunir til þess, en þegar ljóst var að það mundi ekki takast var farin sú leið að fá pólitískan stuðning hinna viljugu eða staðföstu landa við innrásina. Það var hjáleið Bandaríkjastjórnar til þess að fá stuðning við innrásina þegar séð var að hann fengist ekki í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Eins og hér hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og einnig í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, lágu allar upplýsingar fyrir, það var enginn blekktur. Spurningin var bara: Hverjum vildi maður trúa? Ætluðu menn að trúa blint þeim áróðri og því falsi sem var borið á borð, bæði í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og af Bandaríkjastjórn, til þess að réttlæta innrásina eða vildu menn styðjast við bestu fáanlegu upplýsingar annars staðar frá, m.a. frá Hans Blix sem fór fyrir vopnaeftirlitinu í Írak?

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ákváðu að styðja í blindni bandamenn sína, Bandaríkjastjórn, og reyndar hefur aldrei komist botn í það hvernig nákvæmlega sú ákvörðun var tekin af þeim báðum eða öðrum hvorum þeirra. Það verður fróðlegt þegar það kemur upp í skjölum sögunnar vonandi einn góðan veðurdag hvað gerðist nákvæmlega 18. mars 2003, þann afdrifaríka og örlagaríka dag í sögu Íslands.

Hæstv. ráðherra hefur endurtekið hér í ræðum sínum að ákvarðanaferlinu hafi verið ábótavant. Undir það tökum við, við erum öll sammála um það. Hæstv. ráðherra hefur líka sagt að það hafi verið mistök eða rangt að styðja innrásina. Um það erum við líka sammála. Væri þá ekki mest vit í því, í ljósi þess að ákvarðanaferlinu var ábótavant og að ákvörðunin sem slík var mistök og röng, að vinda ofan af mistökunum og vitleysunni með því að taka rétta ákvörðun á þeim stað sem er bær til að taka þá ákvörðun, í þingsal á hinu háa Alþingi? Enginn annar en við sem hingað erum kjörin er bær um að taka slíka ákvörðun. Það voru þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ekki.

Hvers vegna þá ekki núna þegar tækifæri gefst til að sjá að sér fjórum árum eftir að innrásin var gerð, að sjá að sér, samþykkja þessa þingsályktunartillögu og koma því þannig frá Alþingi Íslendinga sem til þess var kjörið, að við tökum aftur stuðninginn og þetta innrásarstríð var ekki og er ekki háð í okkar nafni? Það er hið rétta ákvarðanaferli, þá væri engu ábótavant.

Ég fékk inn um lúguna heima hjá mér þetta tímarit í síðustu viku. Það er frá Johns Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum. Forsíðan á því er svört og á henni stendur talan 654.965. Hér er farið ítarlega yfir rannsókn sem virtustu og færustu faraldsfræðingar í heimi hafa gert, úrtaksrannsókn gerð í Írak tvisvar sinnum, 2004 og 2006, með bestu fáanlegum aðferðum félagsvísindanna, sömu aðferðir og notaðar eru til þess að leggja mat á mannfall annars staðar, t.d. í Darfúr-héraði í Súdan. Enginn hefur borið brigður á niðurstöður rannsókna þar, m.a. ekki á Bandaríkjaþingi. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru svo sláandi að maður á erfitt með að trúa því. 654.965 Írakar hafa fallið umfram það sem eðlilegt gæti talist af dauðsföllum í einu landi á þeim tíma sem liðið hefur frá því að innrásin var gerð. Þeir hafa ekki dáið úr sjúkdómum, þeir hafa dáið vegna ofbeldis í allri sinni hryllilegu mynd, vegna skotsára, sprenginga og annars slíks, 654.965 manns. Það er kannski ágætt að setja þessa tölu í samhengi.

Í Bosníustríðinu, sem stóð frá 1992–1995, féllu u.þ.b. 200 þúsund manns. Í Víetnam-stríðinu féllu 58 þúsund bandarískir hermenn. Ég er ekki með á hraðbergi töluna yfir hversu margir Víetnamar féllu og ég held reyndar að enginn viti það en þeir voru auðvitað miklu, miklu fleiri. Það stríð stóð í meira en áratug. Hörmungarnar sem hafa gengið yfir Írak á þessum fjórum árum sem liðin eru frá innrásinni og stríðinu eru engu líkar og það minnsta sem við getum gert sem þjóð og þing er að lýsa því yfir í krafti ábyrgðar okkar og valds sem löggjafarþing Íslendinga að við styðjum/studdum ekki þessa innrás, biðjumst afsökunar á því að hafa farið á þennan lista og klárum þetta mál í eitt skipti fyrir öll. Ég held reyndar að það hafi ekki bara legið eins og mara á Framsóknarflokknum öll þessi ár, ég held að það hafi legið eins og mara á (Forseti hringir.) íslensku þjóðinni.