133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er afar athyglisverð umræða fyrir margra hluta sakir, þar á meðal þær að Sjálfstæðisflokkurinn er enn fjarverandi í umræðunni og spurning hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki að sýna lit, reyna nokkra málsvörn. Auðvitað er hæstv. utanríkisráðherra til svara og það er rétt og skylt. En ég verð að segja að þessar tilraunir til kattarþvottar af hálfu framsóknarmanna eru óskaplega brjóstumkennanlegar. Maður mundi bera virðingu fyrir því ef framsóknarmenn viðurkenndu, þótt seint væri, hrein mistök, bæðust afsökunar og reyndu að koma málinu af sér þannig. En eitthvað torveldar þeim það. Menn geta auðvitað ekki skilið við þetta mál á meðan það er eins og það er.

Það er algerlega fráleit málsvörn að annars vegar sé um að ræða ómerkilega fréttatilkynningu sem engu máli skipti eða þá að menn hafi verið í góðri trú og verið plataðir með röngum upplýsingum. Hvernig stendur á því að allar hinar þjóðirnar létu ekki plata sig? Það var vegna þess að það lágu fyrir miklu meira en nógar upplýsingar um að engar þjóðréttarlegar forsendur væru fyrir því að ráðast á Írak. Hvers vegna var listinn Bandaríkjamönnum svona mikilvægur? Það var vegna þess að þeir voru að reyna að fá yfirbragð lögmætis á ólöglega innrás í land, sem brýtur stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég mótmæli því, hver sem það segir, hvort sem það er hæstv. landbúnaðarráðherra, hv. þm. Jón Kristjánsson eða hver annar, að menn geri út á eymd og hörmungar og hvernig allt hefur farið á versta veg í Írak þótt þeir vilji hreinsa þessi mál í íslenskum stjórnmálum. Þar er hreingerningin eftir.

Noregur er í NATO eins og við, á í miklu samstarfi við Bandaríkin eins og við og var beittur gríðarlegum þrýstingi en stóð hann af sér og studdi ekki innrásina. Noregur var ekki á listanum. Ég hef fyrir því orð fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, Kjell Magne Bondeviks, að Noregur hafi sjaldan ef nokkurn tíma verið beittur öðrum eins fantaþrýstingi eins og sólarhringana á undan innrásinni í Írak. En það mega Norðmenn eiga að þeir stóðust þann þrýsting. En hægri leppstjórnirnar, hægri undirlægjustjórnirnar á Íslandi og í Danmörku, fóru á listann og auðvitað snýst þetta um það. Þetta voru hægri undirlægjuríkisstjórnir auk þess sem ríkisstjórnin hefur hugsanlega talið að hún ynni sér í hag í væntanlegum viðræðum um veru Bandaríkjahers í Keflavík. Þetta er einn ljótasti bletturinn á íslenskri utanríkismálasögu og fleinn í holdi alþjóðasamfélagsins vegna þess að þarna var stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna brotinn fyrir allra augum.

Það dugar ekkert minna ef á að taka til í þessum málum á heimavelli en að viðkomandi stjórnmálamenn, þótt þeir hafi látið af embætti, biðjist afsökunar og verði jafnstórir í stykkinu og Colin Powell og aðrir þeir sem það hafa gert. (Gripið fram í: Komi fyrir rannsóknarnefnd.)

Í öðru lagi þarf ríkisstjórn, vegna þess að málið var á hennar höndum sem framkvæmdarvalds, að biðjast afsökunar, þingið sem var hunsað, íslensku þjóðina sem var svikin og íröksku þjóðina sem nú hefur týnt lífi hundruðum þúsunda út af þessu ástandi. Síðan þarf að gera eitt, virðulegur forseti. Það þarf að tryggja að svona lagað endurtaki sig aldrei, að tveir menn geti slíkt eða kannski var það bara einn maður sem tók ákvörðun um að misnota nafn Íslands á alþjóðavettvangi, hringdi í annan mann og sagði honum að þannig yrði það að vera. Smátt og smátt á tveimur til þremur árum kom atburðarásin upp úr myrkrunum og hún var þannig að þessi dæmalausa ákvörðun var tekin á hlaupum og að hluta til í gegnum símann. Hver var það nema bandaríski sendiherrann sem mætti í Stjórnarráðið og sat þar frammi og tók á móti boðskapnum.

Einhver eftiráumfjöllun í ríkisstjórn Íslands breytir engu nema því að auka smán þeirra ráðherra sem ekki notuðu tækifærið og mótmæltu. Hún gerir ekki annað. Auk þess er ríkisstjórn er ekki fjölskipað stjórnvald og það hefði ekki breytt öllu pólitískt séð eða lagalega hvað varar ábyrgð ráðherra. En málið var þarna á ábyrgð forsætisráðherra og utanríkisráðherra og þeir fóru svona með völd sín. Það var ekki einu sinni borið upp í ríkisstjórn, sem þó þykir góð stjórnsýsluhefð ef málið er stórt og afdrifaríkt, að ríkisstjórnin sem slík standi öll á bak við það. Það var ekki gert. Utanríkismálanefnd Alþingis var hunsuð og þar með lög brotin. Þannig var að málinu staðið.

Síðast þegar utanríkisráðherra kom fyrir utanríkismálanefnd, nokkrum vikum áður en þessi afdrifaríka kúvending varð, fór hann með sömu línu í málinu og hann gerði opinberlega á sama tíma. Hver var hún? Að tvennt réði afstöðu Íslands: Vopnaeftirlitið ætti að fá meiri tíma og að nýja ályktun þyrfti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna áður en farið yrði í aðgerðir. Svo seint sem 17. mars 2003 sagði Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, þetta. En á sólarhring er blaðinu snúið við og aðgerð sem ekki byggir á sjálfstæðri samþykkt öryggisráðsins studd. Menn setja sig á alþjóðlegan lista því til stuðnings og vopnaeftirlitinu og beiðni þess um meiri tíma er gefið langt nef.

Utanríkisráðherra snýr stefnunni við án þess að ræða þá áherslubreytingu Íslands í utanríkismálanefnd og sá fáheyrði atburður verður að Ísland er allt í einu orðinn stuðningsaðili í ólögmætu árásarstríði í fjarlægu landi. Það birtist þjóðinni á erlendum sjónvarpsskjám og kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir menn, að sögn ýmissa sem stóðu meira að segja býsna nærri ríkisstjórninni.

Þetta er svo fráleitur atburður á allan hátt, hvernig sem hann er skoðaður: stjórnskipulega, lagalega, pólitískt eða siðferðilega, að engu tali tekur. Veran á listanum er pólitískur og siðferðislegur stuðningur við þau svívirðilegu lögbrot sem þarna eiga sér stað, brot á alþjóðalögum. Það er grafalvarlegt. Síðan er ástandið jafnskelfilegt og raun ber vitni og þetta hefur reynst það fúafen sem varað var við. Einn helsti sérfræðingur Íslendinga á þessu sviði, prófessor í Bandaríkjunum, var opinberlega búinn að vara við því. Það var ekki mikið hlustað á hann né nokkurn annan sem varaði við því sem gerast mundi. Það lá fyrir að mjög margir virtir þjóðréttarfræðingar í heiminum sögðu: Það verður brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna ef þetta verður gert án undangenginnar og sjálfstæðrar samþykktar í öryggisráðinu. Þetta vissu menn. Það að bera fyrir sig upplýsingaskort, rangar upplýsingar og að þeir hafi verið í góðri trú eða plataðir, er engin málsvörn.