133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:12]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta er að mörgu leyti athyglisverð umræða. Það sem mér finnst athyglisverðast er að sá flokkur sem ber kannski mesta ábyrgð á málinu, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur verið fjarverandi í umræðunni. Enginn þingmanna þeirra eða ráðherra hefur tekið til máls eða er á mælendaskrá. Lengst af í þessari umræðu var enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í salnum. Það var ekki fyrr en hæstv. forseti, sem er fyrir aftan mig, þurfti að leysa af annan forseta að það sást sjálfstæðismaður í þingsalnum. Síðan er ung kona hér sem veifar mér og minnir á sig og er rétt að geta hennar hérna. En svona tekur Sjálfstæðisflokkurinn þessari umræðu. Hann tekur ekki þátt í að reyna að verja þetta mál.

Málsvörn ráðherra Framsóknarflokksins hefur verið að mestu leyti þannig að Bandaríkjamenn hafi tekið ákvarðanir að Íslendingum fornspurðum. Ég held að menn ættu ekki að reyna að feta þá slóð öllu lengur. Því hefur verið lýst á fyrri stigum málsins, m.a. í viðtölum við fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, hvernig málið bar að og hvernig ákvörðun var tekin utan ríkisstjórnarfunda. Það er alveg víst að ákvörðun var tekin með vitund og vilja formanna stjórnarflokkanna. Það var ekki tekin ákvörðun að þeim fornspurðum.

Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir um þetta mál, með leyfi forseta:

„Þátttaka á lista hinna staðföstu þjóða fólst í pólitískri yfirlýsingu og henni fylgdu ekki aðrar skuldbindingar á því stigi. Þær pólitísku yfirlýsingar voru gefnar af réttum aðilum og voru í fullu samræmi við margendurteknar yfirlýsingar forustumanna stjórnarflokkanna, um að ekki væri hægt að útiloka valdbeitingu í Írak.“

Enn fremur segir Davíð Oddsson, með leyfi forseta:

„Að því hefur verið fundið að ekki sé til bókuð samþykkt ríkisstjórnarinnar um efnið. Þetta er á misskilningi byggt. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald. Utanríkisráðherra fer, með atbeina forsætisráðherrans, þegar það á við, með ákvörðun af þessu tagi. Enginn ágreiningur var um hana í röðum ráðherra.“

Þeir tóku þessa ákvörðun meðvitað áður en atburðirnir gerðust. Það er upplýst að ákvörðun var ekki tekin í ríkisstjórn en hún var kynnt síðar og ráðherrarnir undu henni, þar á meðal hæstv. landbúnaðarráðherra. Ráðherrar sem sitja eftir að ákvörðun hefur verið tekin og una henni bera líka ábyrgð á henni. (Landbrh.: Hvað gerði hv. þingmaður?) Þeir bera líka ábyrgð á henni, virðulegi forseti, og það þýðir ekkert fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra að reyna að hlaupa frá ábyrgðinni (Landbrh.: Hvað gerði hv. þingmaður?) með því að halda því fram að hún hafi ekki verið tekin með hans vitund. (Landbrh.: Hvað gerði þingmaðurinn?) Hann undi ákvörðuninni, virðulegi forseti, hæstv. landbúnaðarráðherra og situr enn, (Landbrh.: Ekki sagði hann af sér, hv. þingmaður.) situr enn í ríkisstjórninni en hann neitar að axla hina pólitísku ábyrgð. Það er kannski einkenni ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili að menn neita að axla pólitíska ábyrgð. Það er stóra málið í þessu.

Þessir tveir menn fóru fram hjá ríkisstjórninni, fóru fram hjá Alþingi og þeir fóru fram hjá þingmönnum. Ákvörðunin var ekki borin undir ríkisstjórn, ekki undir utanríkismálanefnd og hún var ekki borin undir þingflokka stjórnarflokkanna. (Landbrh.: Rétt.) Þegar ég upplýsti það, virðulegi forseti, svo ég hressi upp á minni hjá hæstv. landbúnaðarráðherra, að þingflokkur framsóknarmanna hefði ekki verið spurður um álit á þessu máli þá var ég sagður segja ósatt. Menn sögðu að ég segði ósatt (Landbrh.: Ekki ég.) og hæstv. landbúnaðarráðherra kom mér ekki til varnar. Þá þagði hann. Hjartað var ekki stærra en svo að hann gat ekki staðið með sannleikanum. Hann gat ekki staðið með því sem var rétt. Hann stóð með sjálfum sér af því að hann vildi fá að sitja í stólnum, virðulegi forseti.

Þetta þarf að gera upp í þessum kosningum, þ.e. meðferð valdsins. Vill þjóðin hafa í ríkisstjórn flokka sem sniðganga þingræðisregluna, sem virða ríkisstjórnina að vettugi þegar þeim hentar? Þeir virða þingið að vettugi þegar þeim hentar og virða þingflokkana að vettugi og finnst það allt í lagi og finnst þeir ekki þurfa axla neina ábyrgð eða afsaka nokkuð í þeim efnum. Vilja menn hafa svoleiðis stjórnvöld áfram, virðulegi forseti? Eða vilja menn hafa stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka sem virða þingið, sem virða almenning og gera eitthvað annað en hlýða tveimur foringjum, beygja sig fyrir tveimur foringjum af því að þeir eru svo hræddir um eigið embætti og stöðu að þeir þora ekki að segja neitt, ganga jafnvel svo langt að níðast á þeim sem það þora?

Á þessu þarf að verða breyting, virðulegi forseti, í næstu kosningum, að menn verði settir við stjórnvölinn sem virða þingræðið og lýðræðislegar leikreglur. Ég held að það sé tímabært að menn dragi það fram og beri undir kjósendur fremur en að þræta um hvað var sýnt í ríkisstjórninni á hverjum tíma deginum fyrr eða seinna. Menn bera ábyrgðina og menn verða að axla hana og það þýðir ekki að reyna að flýja hana með einhverju orðaskaki, virðulegi forseti.