133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:32]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þá blasir við að það eina rétta að gera fyrir þingmenn Framsóknarflokksins á Alþingi er að samþykkja ályktunina eins og hún liggur fyrir. Þetta liggur þannig: Ákvörðunin var röng, þetta voru mistök, og leiðin til þess að gera hreint fyrir sínum dyrum fyrir þingi og þjóð, að allir geri það — nema líklega Sjálfstæðisflokkurinn sem er væntanlega forhertari en nokkru sinni fyrr í stuðningi sínum við stríðið í Írak — er að samþykkja fyrirliggjandi ályktun. Þetta er eins og gjöf upp í hendurnar á Framsóknarflokknum miðað við stöðuna eins og hún er núna.

Vegna orða hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur áðan um að einhver kænska felist í því að fara að tala um þetta þingmál og Íraksstríðið í aðdraganda kosninga þá er það einfaldlega svo að málið sem um ræðir er 13. mál fram lagt á yfirstandandi löggjafarþingi. Sú staðreynd að það skuli vera rætt núna, 1. mars, ber því ekki vitni um herkænsku heldur aðallega um vinnubrögðin á hinu háa Alþingi.