133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það stoðar ekki að nota það sem rök að tillagan sé seint til umræðu. Við höfum tekið þetta mál upp á hverju einasta þingi og flutt um það þingmál, um rannsókn þessara atburða og um að formlega verði beðist afsökunar á þeim. Tilviljanir valda því að að þessu sinni og á þessu þingi er málið svona seint á ferð.

Vandinn er sá fyrir Framsóknarflokkinn að pólitísk ábyrgð hans í málinu gufar ekki upp þó að flokknum kunni að líða illa með það. Það er vissulega hægt að hafa samúð með hv. þingmanni sem ekki var á þeim stað sem hún er nú þegar umræddir atburðir urðu. Það breytir engu um hina pólitísku ábyrgð Framsóknarflokksins á málinu. Þar dugar ekkert annað en hrein afsökunarbeiðni. Sú er hefðin í tilvikum af þessu tagi, í samskiptum í pólitík og í samskiptum milli þjóða. Þess er krafist víða um heim að þjóðir eða þjóðríki biðji afsökunar jafnvel á áratuga- næstum aldagömlum atburðum ef sagan hefur leitt í ljós, og viðhorf hafa breyst á þann veg, að menn sjá að þar hefur einhver óhæfa átt sér stað.

Það er t.d. fleinn í holdi samskipta Asíuþjóða að Japanar neita að biðja formlega afsökunar á grimmdarverkum sínum í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar á Kóreuskaganum, í Norður-Kína og víðar. Krafan stendur á þá að biðjast afsökunar. Krafan stendur á Tyrki að viðurkenna þjóðarmorð á Armenum og biðjast afsökunar. Við erum að tala um að menn axli ábyrgð með þessum hætti en ekki bara með því að segja: Ja, nú hefur komið í ljós að ákvörðunin var misráðin vegna þess að aðrar upplýsingar liggja fyrir o.s.frv.

Forherðing Sjálfstæðisflokksins, sem hunsar umræðuna, bætir heldur ekki stöðu Framsóknar, hún gerir það ekki. Hin pólitíska ábyrgð er áfram til staðar.

Hv. þingmaður var óheppinn þegar hann nefndi að auðlindir Íraks þyrftu nú að komast í hendur almennings þar. Ætli ein afleiðing þessa skelfilega stríðs sé ekki m.a. sú að allar olíuauðlindir Íraka eru að verða komnar í hendur amerískra og breskra auðhringa? Þannig fór það nú.

Að lokum (Forseti hringir.) þarf að tryggja að svona lagað gerist aldrei aftur. Þess vegna hefur maður nú m.a. spurt (Forseti hringir.) ríkisstjórnina: Getið þið lofað okkur því að leikurinn endurtaki sig ekki gagnvart Íran? Þá er engu svarað.