133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég treysti því og veit að hv. þingmaður er einlægur í því. Ég hvet hv. þingmann til að beita sér við samflokksmenn sína og samstarfsflokk í ríkisstjórn. Mjög nýlega spurði ég hæstv. forsætisráðherra hvort hægt væri að gefa okkur afdráttarlausa yfirlýsingu um að leikurinn muni ekki endurtaka sig. Því var svarað út og suður. Því var svarað með því að engin formleg beiðni hefði borist um slíkt og því ekki á dagskrá að ræða það, þess þyrfti ekki.

Ef við viljum virkilega læra af þessu máli þurfum við að binda í lög og helst í stjórnarskrá þannig ferli að menn geti aldrei misfarið með vald sitt á þennan hátt. Það á ekki að vera hægt að skuldbinda Ísland með þessum hætti, gera það að stuðningsaðila stríðsaðgerða, fyrr en að undangengnu lögformlegu ferli í gegnum utanríkismálanefnd og Alþingi og þingflokka — enginn einn eða engir tveir menn eiga nokkurn tíma aftur að geta látið aðra eins óhæfu verða.