133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en bara stinga inn örfáum orðum eftir frammistöðu hæstv. landbúnaðarráðherra. Nú er búið að lýsa því yfir af hans hálfu að hann ætli ekki að standa að því að gera svona aftur. Það er ágætt og virðingarvert að hæstv. ráðherra skuli gera það. Ég tel hins vegar að menn þurfi að gera meira til þess að flokkurinn endurheimti það traust að honum sé trúandi fyrir því að fara með völd á Íslandi, því ætli flokkur að fara með völd verður hann að virða þær reglur sem hann á að starfa eftir. Hann þarf að virða lög, hann þarf að virða þingræðisregluna.

Það er stærsti gallinn — virðulegi forseti, ég kann ekki við að trufla þennan fund frammi í sal sem ráðherrann stendur hér fyrir þannig að ég gef þeim bara ráðrúm til að ljúka honum og held svo áfram máli mínu þegar þeir hafa lokið fundarhöldum sínum í þingsalnum.

Það er algjörlega nauðsynlegt, virðulegi forseti, að landsmenn verða að geta treyst stjórnmálaflokkunum til þess að virða þingræðið og löggjöf. Við þurfum að geta treyst flokkunum og forustumönnum þeirra til þess að fara að lögum, fara t.d. að lögum um þingsköp um samráð við utanríkismálanefnd. Við þurfum að geta treyst þeim til þess að virða þingræðisregluna og taka ekki ákvarðanir án þess að hafa fyrir þeim þingmeirihluta og að afla þess meiri hluta áður en ákvörðun er tekin en ekki að taka fyrst ákvörðunina og setjast svo á þingmenn eftir á með hótunum ef því er að skipta. Það eru slíkir stjórnarhættir sem hafa verið vaðandi uppi á þessu kjörtímabili og við höfum séð í Íraksmálinu og við höfum líka séð í fjölmiðlamálinu. Enn þá eimir eftir af þannig stjórnarháttum í því skaki sem verið hefur um endurskoðun stjórnarskrárinnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki mega hugsa til þess hver gegni embætti forseta Íslands án þess að missa allt jafnvægi og setja fram eilífar kröfur og aðfinnslur um forsetann sjálfan og kröfur um að breyta stjórnarskránni þannig að forsetinn hafi minna vægi en er samkvæmt gildandi stjórnarskrá.

Það eru þessir hlutir sem þarf að hreinsa út af borðinu. Það verður ekki gert, virðulegur forseti, nema í þingkosningum og það verður ekki gert nema stjórnmálaflokkarnir dragi þessa hluti fram og leggi þá á borðið fyrir kjósendur að þetta er það sem þarf að kjósa um, heilbrigð stjórnmál eða ekki heilbrigð stjórnmál. Við getum ekki búið í lýðræðisríki við þær aðstæður að fáeinir menn hafi allt í greip sinni og hóti mönnum illu ef því er að skipta til þess að hafa fullkomið vald á hlutunum. Um þetta hafa illindin og sárindin í Íraksmálinu snúist, um hinn efnislega stuðning Íslands, pólitískan stuðning við stríð. Þetta er hin undirliggjandi djúpa reiði sem er í þessu máli og í fjölmiðlamálinu.

Þjóðin vill ekki svona stjórnarhætti. Þeir sem hafa gert þetta mögulegt, ekki kannski vegna þess að þeir vildu það heldur vegna þess að þeir umbáru það, völdu það frekar að sitja í stólum sínum en að standa upp og segja við forustumennina: Hingað og ekki lengra, þeir verða að stíga fram og þeir verða að hreinsa þetta borð algjörlega.

Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur stigið skref í þá átt og ég virði það við hann en flokkurinn stendur eftir með málið óuppgert og menn hljóta að spyrja: Er hægt að treysta þessum tveimur flokkum sem eru í ríkisstjórn fyrir því að stjórna áfram næstu fjögur ár? Munu þeir gera þá hluti aftur sem þeir gerðu á þessu kjörtímabili? Svarið hlýtur að vera já, fólk muni trúa því að þeir geri það aftur nema þeir geri þetta upp, nema þeir hreinsi þetta mál út, viðurkenni mistök sín, biðjist afsökunar og heiti því að virða lög og reglur landsins. Það er þetta sem málið snýst um, þetta er pólitíkin í þessu máli, virðulegi forseti.

Ég vil svo segja að lokum að hér hafa menn reynt að stíga skrefið til baka. Það hafa menn gert án þess að viðurkenna sök í málinu. Það er áhyggjuefni vegna þess að það sýnir einbeittan vilja til að halda áfram að gera það sem var rangt þegar menn vilja ekki viðurkenna að það var rangt heldur bakka með því að bera því við að forsendur hafi verið rangar, að menn hafi verið í góðri trú. Það var ekki þannig, virðulegi forseti, hvorki í Íraksmálinu né í fjölmiðlamálinu, forsendur voru ekki rangar. Ég skora á þá sem því hafa haldið fram hér í umræðunni varðandi Íraksmálið að forsendur hafi verið rangar, að upplýsa það: Hvaða forsendur voru rangar? Það liggur fyrir að það var óheimilt samkvæmt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna að hefja þetta stríð. Það var óheimilt, það lá fyrir. Hvað ætla Íslendingar að gera í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Ætla þeir að senda þangað mann þegar þeir eru búnir að vinna þar sæti og segja: Við ætlum ekkert að fara eftir stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna nema þegar okkur sýnist svo. Hvaða erindi eiga Íslendingar í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna með það viðhorf að það þurfi ekki að virða sáttmála Sameinuðu þjóðanna ef Bush og Bandaríkjamenn hafa aðrar óskir? Er það hlutverk okkar?

Hvaða forsendur voru rangar, virðulegi forseti? Var það forsendan um gereyðingarvopnaeign Íraka? Nei, virðulegi forseti. Þáverandi utanríkisráðherra trúði ekki þeim ásökunum og hann sagði alveg fram að þeim degi áður en árásin hófst, að vopnaeftirlitsmenn þyrftu meiri tíma og ættu að fá meiri tíma til að leita af sér allan grun. Það sagði hann auðvitað vegna þess að hann vissi að það lá engin sönnun fyrir þessum ásökunum. Utanríkisráðherra Íslands var 17. mars á þeirri skoðun að það væri ekki sönnuð fullyrðing að það væri gereyðingarvopnaeign hjá Saddam Hussein. Ég spyr enn: Hvaða forsenda var það sem var röng, virðulegi forseti?

Ég vil svara því fyrir mitt leyti: Það var engin forsenda röng. Forsendurnar lágu fyrir. Ákvörðunin sem var tekin var pólitísk, eins og þáverandi forsætisráðherra hefur lýst yfir og ég hef vitnað í í fyrri ræðu minni. Það var á bak við þessa pólitísku yfirlýsingu sem stjórnarflokkarnir tóku pólitíska ábyrgð. Það er hið alvarlega í málinu, virðulegi forseti.