133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

samningur um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja.

640. mál
[18:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar konungsríkisins Danmerkur og landstjórnar Færeyja hins vegar um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja sem gerður var í Kaupmannahöfn og Reykjavík 1. og 2. febrúar sl.

Við útfærslu íslensku efnahagslögsögunnar í 200 sjómílur árið 1975 ákváðu stjórnvöld m.a. að nota klettinn Hvalbak sem viðmiðunarpunkt við ákvörðun miðlínu milli Íslands og Færeyja. Dönsk stjórnvöld gerðu fyrirvara við þessa ákvörðun fyrir hönd Færeyja og ákvörðuðu miðlínuna miðað við grunnlínur landanna án tillits til Hvalbaks. Þar með varð til umdeilt hafsvæði milli Íslands og Færeyja, um 3.700 km² að stærð.

Í kjölfar samningaviðræðna embættismanna landanna náðist samkomulag um afmörkun hins umdeilda hafsvæðis í Þórshöfn haustið 2002 á fundi Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra, og Anfinns Kallsbergs, þáverandi lögmanns Færeyja. Í samkomulaginu fólst að nyrðri hluti umdeilda svæðisins sem nemur um tveimur þriðju hlutum af svæðinu í heild skiptist þannig milli aðila að Ísland fengi 60% í sinn hlut en Færeyjar 40%. Syðsti hluti umdeilda svæðisins sem nefndur er „sérsvæðið“ og nemur um þriðjungi af svæðinu í heild skiptist hins vegar jafnt á milli aðila.

Vegna sérstakra aðstæðna á sérsvæðinu var um það samið að bæði íslensk og færeysk skip hefðu rétt til fiskveiða á því svæði öllu samkvæmt þeim reglum sem um þau gilda í eigin fiskveiðilögsögu. Er því í raun um sameiginlegt fiskveiðisvæði að ræða.

Ákveðið var að gengið yrði frá formlegum afmörkunarsamningi sem mundi ná til allrar lögsögulínunnar milli Íslands og Færeyja þegar tæknilegri endurskoðun á grunnlínupunktum hvors lands um sig yrði lokið. Hinni tæknilegu endurskoðun lauk ekki fyrr en haustið 2006 en í kjölfarið náðist samkomulag um texta hins formlega afmörkunarsamnings sem hér er lagt til að verði staðfestur. Á uppdrætti sem fylgir samningnum má sjá endanlega markalínu milli Íslands og Færeyja og hvernig hið umdeilda svæði skiptist milli landanna. Á fundi sínum í Reykjavík 2. febrúar sl. undirrituðu Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. utanríkisráðherra, og Jóannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, samninginn en daginn áður hafði Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, undirritað hann.

Með gerð þessa samnings er lokið með formlegum hætti afmörkun efnahagslögsögu Íslands gagnvart lögsögu nágrannalandanna, en áður hafði verið gengið frá afmörkun efnahagslögsögunnar gagnvart lögsögu Jans Mayens, Grænlands og Bretlands.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, er samningurinn háður samþykki Alþingis.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.