133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.

648. mál
[18:34]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins spyrjast svolítið fyrir um innihaldið í þessari þingsályktunartillögu. Það er eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra verið að afgreiða fyrir okkar hönd í einni þingsályktun nokkuð margar breytingar og ástæða kannski til að reyna að átta sig á í hverju breytingarnar felast því þingsályktunin er pólitísk yfirlýsing sem heimilar ríkisstjórninni að skuldbinda okkur til að taka efni hinna nýju gerða inn í EES-samninginn þannig að flytja þarf lagafrumvörp í kjölfarið á þessu. Þá finnst mér að nokkuð betur þurfi að liggja fyrir en er að finna í þessum gögnum, hvaða lagabreytingar munu leiða af umræddri þingsályktunartillögu.

En fyrst rek ég augun í að ályktun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem er grundvöllur að þessu, er frá 2. desember 2005. Miðað við EES-samninginn gengur þetta þannig fyrir sig að fulltrúi Íslands setur fyrirvara á fundi sameiginlegu nefndarinnar og þá fá Íslendingar sex mánaða frest til að leggja málið fyrir Alþingi. Mér sýnist að frá 2. desember 2005 séu liðnir 16 mánuðir, þ.e. tíu mánuðir fram yfir þá sex mánuði sem ríkið hefur til að aflétta fyrirvaranum. Mig langar að fá upplýsingar um það hvers vegna utanríkisráðherra hefur ekki lagt þetta mál fyrr fyrir þingið. Það er komið svona langt fram úr þeim tímamörkum sem við höfum skuldbundið okkur til að virða. Ég held að fróðlegt væri að frá svör við því. Ef það kemur ekki að sök, að málið komi ekki fyrir þingið fyrr en tíu mánuðum eftir að afgreiðslu þess átti að vera lokið, þá sýnist mér það komi ekkert að sök þótt það hljóti ekki afgreiðslu núna þá fjóra, fimm daga sem eftir eru af þinginu og menn geti bara látið þetta liggja og tekið það upp í haust. Ég sé ekki annað en að málið hljóti að þola þá bið. Þetta er dálítið viðamikið mál og það verður eiginlega svolítil skemmri skírn á yfirferð á þessum miklu reglum ef utanríkismálanefnd og viðeigandi fagnefnd eiga að fara yfir þetta og önnur mál sem hér liggja fyrir á þeim stutta tíma sem eftir er.

Í öðru lagi eru það hinar efnislegu breytingar. Ég sé í þeirri fyrstu, þ.e. að innleiða reglugerð frá Evrópuþinginu nr. 1228/2003, að hún fjallar um raforkuviðskipti yfir landamæri. Ég spyr: Að hvaða leyti mun hún eiga við hér á landi? Hvaða raforkuviðskipti yfir landamæri eiga sér stað hér eða munu eiga sér stað? Eftir hvaða leiðum fara þau og hvar liggja þá þau landamæri? Svo ég spyrji bara nokkuð opið því ég sé reyndar ekki að þessi tilskipun eigi nokkuð við. Ég sé ekki þó að hún sé sett inn í íslensk lagasafn að hún hafi nokkurt gildi, nema að stjórnvöld sjái fyrir sér að á næstu árum verði unnt að flytja raforku til og frá landinu. Því tilgangur þessarar reglugerðar, ef ég skil þetta rétt, er að tryggja samkeppni á raforkumarkaði. Það gera lönd í Evrópu sem liggja saman með því að flytja rafmagn yfir landamærin eins og hæglega er hægt að gera þar. En við búum á eyju og lifum við allt aðrar aðstæður. Ég veit ekki til að við séum í neinum tengslum við erlenda raforkumarkaðinn. Ég sé því ekki tilganginn í að lögfesta þetta nema stjórnvöld sjái fyrir sér á næstu árum að þetta muni breytast og þá væri fróðlegt að fá upplýsingar um það.

En varðandi þessa reglugerð sýnist mér að hún feli í sér m.a. það ákvæði að fela eftirlitsstofnunum EFTA-ríkjanna stjórnsýsluverkefni sem í Evrópusambandinu eru falin framkvæmdastjórninni. Þetta þýðir einfaldlega að þessar EFTA-stofnanir fá heimildir til að sekta fyrirtæki. Mér finnst það alltaf vera viðkvæmt atriði þegar við gerum samning af þessu tagi, og þetta er eitt af því sem hefur verið deilt um í EES-samningnum, hvort menn hafi gengið lengra en stjórnarskráin heimilar um að framselja vald úr landi og þá sérstaklega dómsvald. Ég var í síðustu viku einmitt á ráðstefnu um þetta efni. Það er mikið álitamál hvort slíkar heimildir til erlendra eða yfirþjóðlegra stofnana standist íslenska stjórnarskrá. Mér sýnist að með þessari reglugerð sé verið að bæta fleiri álitaefnum í safnið.

Önnur reglugerð er um sameiginlegar reglur fyrir innri markaðinn og breytingu á því og þar gengur mér illa að átta mig á hverjar séu helstu breytingar vegna þess að hér er aðeins birt reglugerðin sjálf en ekki íslensku lögin og ekki gerð grein fyrir hvaða lagabreytingar þurfa verða í íslensku lögunum. Mér finnst að við þyrftum að hafa það svo við gætum áttað okkur á hvaða lagabreytingar verður að gera að mati ráðuneytisins í kjölfar þess að menn samþykki þessa breyttu tilskipun á innri markaðnum fyrir raforku. Þá hef ég í huga reynslu okkar af því að innleiða þá reglugerð hér í upphafi kjörtímabilsins, eða við lok þess síðasta, ég man ekki hvort heldur það var. Það hefur því miður gengið þannig til að ekki verður hægt að segja að almenn ánægja ríki með framkvæmdina. Verðlag hefur hækkað hjá býsna mörgum og töluverð óánægja er með þetta nýja samkeppnisfyrirkomulag og vantar greinilega mjög mikið upp á að hér séu þær aðstæður að einhver samkeppni sé á markaði sem tryggi raforkukaupendum besta verð og góða þjónustu.

Ég held að menn þurfi að staldra aðeins við og skoða, úr því að menn fóru á annað borð inn á þær brautir að reyna að markaðsvæða raforkuframleiðsluna, dreifinguna og söluna, að koma sér niður á breytingar sem eru líklegar til að ná þeim árangri sem að var stefnt, virðulegi forseti.