133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breyting á IV. viðauka við EES-samninginn.

648. mál
[18:42]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi það sem hv. þingmaður spurði um. Ég vil byrja á að upplýsa að það er rétt sem hér kemur fram að þetta mál kemur nokkuð seint fram. Aðalskýringin á því er að talsverð bið er eftir þýðingum sem frestar því að við getum tekið þessar tilskipanir hratt inn í þingið. Aðalskýringin á því að þessi bið hefur skapast er að ekki hefur gengið nægjanlega hratt að þýða.

Hvort þessar tilskipanir standist stjórnarskrá, þá tel ég svo vera. En ég tek fram að utanríkismálanefnd mun auðvitað skoða þessa tilskipun vel eins og aðrar sem til umfjöllunar eru á hverjum tíma og fer yfir það hvaða lagabreytingar tilskipunin felur nákvæmlega í sér. Ég er ekki með tæmandi yfirlit yfir það.

Hvort til stendur að flytja rafmagn yfir landamærin er það ekki á dagskrá. Enginn veit svo sem hvað framtíðin ber í skauti sér í því sambandi. En það er rétt sem fram hefur komið að hér eru sérstakar aðstæður þannig að þessar tilskipanir, eins og svo sem margar aðrar, eru ekki sérsniðnar fyrir íslenskar aðstæður. Þegar tilskipunin var til umfjöllunar á sínum tíma, aðaltilskipanir um raforkumál, þá héldu fulltrúar íslenskra stjórnvalda því ítrekað fram að efni tilskipananna ættu illa við raforkukerfi okkar. Eftir að búið að var að ræða það ítrekað og draga það fram að raforkukerfi okkar væri ekki tengt kerfum annarra ríkja og að sú sérstaða að okkar raforka er unnin úr endurnýjanlegum orkulindum, varð ljóst að ESB var ekki tilbúið til að fallast á að Ísland fengi undanþágu frá tilskipuninni í heild, enda væri um innri markaðsgerð að ræða sem innihéldi undanþáguheimildir fyrir lítil og einangruð kerfi. Eftir samráð á þeim tíma og ítarlega skoðun tilskipunarinnar og umsögn frá Orkustofnun og Samorku og að fengnum viðbrögðum framkvæmdastjórnarinnar við athugasemdum Íslands, var talið eðlilegt að tilskipunin yrði felld inn í EES-samninginn.

Virðulegi forseti. Þetta eru svona sagnfræðilegar upplýsingar sem tengjast auðvitað þeim málum að raforkukerfi í Evrópu eru auðvitað ekki eins og okkar af því við búum á eyju. En ég tel eðlilegt að utanríkismálanefnd skoði málið og meti það hvort tekst að klára þetta núna eða ekki. Ég ber fullt traust til nefndarinnar að geta metið það eðlilega.