133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

649. mál
[19:01]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2006, um breytingu á IX. og XIX. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir. Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Tilgangur tilskipunarinnar er að auka virkni innri markaðarins og stuðla að háu stigi neytendaverndar með samræmingu á lögum, reglum og stjórnvaldsfyrirmælum um óréttmæta viðskiptahætti sem skaða hagsmuni neytenda.

Tilskipunin gildir um viðskipti neytenda við seljendur sem stunda starfsemi sína í atvinnuskyni. Utan gildissviðs tilskipunarinnar falla reglur samningaréttarins, reglur er varða heilsu og öryggi, reglur um lögsögu dómstóla, reglur um starfsstéttir, reglur um fjarsölu fjármálaþjónustu og fasteignir ásamt reglum um eðalmálma.

Í tilskipuninni er tekið fram að til að um óréttmæta viðskiptahætti sé að ræða verði þeir að hafa fjárhagsleg áhrif til hins verra fyrir neytandann eða vera líklegir til þess að hafa slík áhrif.

Fram til þessa hafa neytendaverndartilskipanir verið lágmarkstilskipanir en í því felst að hvert ríki getur sett sér strangari neytendaverndarreglur ef það vill. Þetta hefur leitt til ósamræmis í löggjöf ríkja Evrópska efnahagssvæðisins sem að mati framkvæmdastjórnar ESB veldur hindrun á frjálsu flæði vöru og þjónustu. Var því ákveðið af hálfu sambandsins að krefjast í þessari tilskipun fullrar samræmingar á þeim sviðum sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar.

Unnið er að innleiðingu tilskipunarinnar í viðskiptaráðuneytinu og er stefnt að því að frumvarp þess efnis verði lagt fyrir Alþingi næsta haust.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til síðari umræðu og til hv. utanríkismálanefndar.