133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:32]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Íslensk stjórnvöld eru að leita samstarfs við grannþjóðir innan Atlantshafsbandalagsins um öryggismál okkar á friðartímum. Slíkt samstarf getur ekki orðið án þess að hér sé í gildi samningur um réttarstöðu þess liðsafla sem hingað kann að koma í boði íslenskra stjórnvalda. Þessir samningar eru því forsenda þess að slíkt samstarf geti átt sér stað.

Ég vil líka benda á að fullgilding SOFA-samningsins og samningsins um Samstarf í þágu friðar er forsenda þess að þær þjóðir sem við höfum álitið vera og eru bandalagsþjóðir okkar og vinaþjóðir, geti komið hingað til að taka þátt í æfingum og vörnum landsins á sama tíma og réttarstaða liðsafla þeirra sé tryggð. Þetta mál gengur því út á réttarstöðu þessara aðila.

Varðandi friðargæsluna, íslensku friðargæsluliðana, þá er um það sama að ræða, að verið er að ræða um réttindi þeirra. Ég vil undirstrika að við sem erum fylgjandi því að eiga í samstarfi við bandalagsþjóðir okkar í NATO, teljum eðlilegt að réttarstaða þeirra þjóða sem eru í samstarfi við okkur sé tryggð þannig að slíkt samstarf geti átt sér stað.

En ég veit að hv. þingmenn vilja leggja niður NATO þannig að ég skil ósköp vel að þeir skuli finna þessum samningum allt til foráttu, en þar greinir okkur algerlega á.