133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú virðingarvert af hæstv. heilbrigðisráðherra að vera hér í þeim verkum að reyna að útskýra þetta fyrir hönd fjarstadds utanríkisráðherra. En satt best að segja hélt ég að heilbrigðisráðherra hefði nóg annað á sinni könnu og tíma hæstv. heilbrigðisráðherra væri betur varið að mínu mati í að glíma við heilbrigðismálin en að vera að standa í þessu. En það er nú önnur saga.

Hæstv. ráðherra segir að þetta sé til þess að tryggja réttarstöðu þess liðs sem komi hingað í boði íslenskra stjórnvalda til að stunda heræfingar. Hvernig með að sleppa þá að bjóða því? Er þá ekki vandinn leystur?

Ef það er eins og hæstv. ráðherra segir, sem má að vísu draga í efa að mínu mati miðað við ákvæðin í samningnum við Bandaríkjamenn, að það sé bara þannig að Íslendingar stjórni þessu alfarið sjálfir, þá er það gott og þá segjum við bara að við höfum ekki áhuga á því. Við teljum ekki þörf á neinu hernaðarbrölti og heræfingum í landi okkar á þessum friðartímum sem ráðherrann svo fallega kallar það og vonandi réttilega.

Varðandi síðan inntakið í þessum SOFA-samningi og þeim samskiptum þarf líka að athuga það. Það er ekki eins og það sé bara sjálfvirkt og sjálfgefið að taka við þessu eins og þetta er. Má ég minna á það stórfellda afsal á íslensku fullveldi, íslenskum rétti, íslenskri lögsögu í sakamálum sem var fólgið og er að hluta til enn fólgið í leynisamningunum við Bandaríkjamenn. Er ekki sumpart það sama á ferðinni hér? Að gefin sé eftir eðlileg lögsaga Íslands í málum og í raun njóti þeir hermenn sem þetta tekur til, talsverðrar friðhelgi. Og hin erlendu ríki fái vald til þess að t.d. sakamenn eða meintir brotamenn séu framseldir til þeirra og þeir sjái um málið. Það þarf nú líka að fara ofan í saumana á því hvað er þarna raunverulega á ferðinni.