133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:40]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að a.m.k. þeir sem vilji vera réttmætir skynji að stefnubreyting hefur orðið að vissu leyti í utanríkisráðuneytinu. Sem dæmi nefni ég friðargæsluna. Þar hefur hæstv. utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, m.a. lagt áherslu á að breyta kynjahlutföllum þannig að fleiri konur taki til starfa í friðargæslunni. Ég styð þá stefnubreytingu heils hugar og ég veit að margir aðrir gera það.

Ég vil líka benda á að búið er að aflétta leynd af samningum, það skref var tekið fyrir ekki svo löngu síðan. Ég hef ekki heyrt betur en að allir hafi fagnað þeirri stefnubreytingu.

Það sem ekki er verið að gera er að veikja NATO-samstarfið. Þar er sú stefna uppi hjá stjórnvöldum, og reyndar líka öflum í stjórnarandstöðunni, eða flokkum, að styðja áfram aðild okkar að NATO og vera í góðu samstarfi við þær þjóðir sem þar sitja við borðið. (SJS: En Túrkmenistan?) Þar eru vinaþjóðir okkar og við viljum áfram vera í samstarfi við þær. — Ég heyri að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallar fram í Túrkmenistan. Ég veit ekki hvaða fordóma hann hefur gagnvart því ríki.

En ég vil ítreka það, virðulegi forseti, að breytingar hafa orðið í utanríkismálum okkar en ekki hvað varðar NATO-samstarfið. Þar erum við algerlega ósammála þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem sjá því allt til foráttu, en það gerum við ekki.