133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeir einstaklingar sem í hlut eiga reyna að sjálfsögðu að láta gott af sér leiða, það hefur enginn verið með efasemdir um slíkt. Ég bendi hins vegar á að við eigum að beina kröftum okkar inn á önnur svæði en þau þar sem Bandaríkin hafa farið með hernaði. Staðreyndin er sú að ef Írakar hefðu verið látnir í friði frá því að stríðinu við Íran lauk árið 1988 væru Írakar sennilega ein ríkasta þjóð heimsins og stæði einna best, a.m.k. í þessum heimshluta, vegna þeirra auðlinda sinna sem bandarískir, evrópskir og fjölþjóðlegir auðhringar ásælast.

Nú ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar: Nákvæmlega í hvað fara íslenskir fjármunir í Írak? Hún segir að ég gefi skakka mynd um hið jákvæða starf sem þar er unnið. Ég beini orðum mínum til hæstv. ráðherra: Í hvað hafa íslenskir fjármunir farið í Írak, í hvaða uppbyggilega starf þar í landi?