133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

útflutningsaðstoð.

656. mál
[21:14]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002.

Tilgangur með frumvarpi þessu er að tryggja áframhaldandi fjármögnun Útflutningsráðs. Núverandi fyrirkomulag rennur sitt skeið í lok ársins, en það hefur verið í gildi frá upphafi árs 2003. Í frumvarpinu er lagt til að núgildandi fjármögnun verði framlengd til fimm ára á nýjan leik eins og gert var með núverandi lögum. Í frumvarpinu er einnig lagt til að breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi og skipan funda samráðsnefndar atvinnulífs og stjórnvalda um utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð.

Í greinargerð með frumvarpinu er að finna sögulegt yfirlit yfir fjármögnun Útflutningsráðs. Útflutningsráð Íslands hefur alla tíð verið sjálfstæð stofnun fjármögnuð beint af atvinnulífinu, án fjárframlaga á fjárlögum, nema að litlu leyti fyrstu árin. Frá árinu 1998 hefur rekstur Útflutningsráðs verið fjármagnaður að langmestu leyti með svokölluðu markaðsgjaldi. Það er lagt á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds. Markaðsgjald er 0,05% af því og um álagningu og innheimtu þess fer eftir ákvæðum laga um tryggingagjald. Þessi fjármögnunarleið hefur skapað festu um rekstur ráðsins.

Óhætt er að segja að almenn ánægja ríki meðal fyrirtækja í landinu með starfsemi Útflutningsráðs og eins hefur samstarf Útflutningsráðs og utanríkisráðuneytisins verið í góðum farvegi. Af þeim sökum er lagt til að núgildandi fjármögnun verði framlengd til fimm ára.

Eins og ég gat um í upphafi felur frumvarpið enn fremur í sér breytingar á skipan í samráðsnefnd atvinnulífs og stjórnvalda um utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð. Talið er óþarft að binda fjölda funda samráðsnefndarinnar og fundarstjórn í lög. Sama máli gegnir um skipan nefndarinnar. Nefndin er núna skipuð yfir 20 fulltrúum þar til greindra samtaka og ráðuneyta en til marks um þörf á auknum sveigjanleika við skipan nefndarinnar má nefna að á þeim lista er ekki að finna neina fulltrúa fjármálasamtaka. Nefndin er og verður áfram skipuð fulltrúum samtaka úr atvinnulífinu og stjórnvalda auk stjórnar Útflutningsráðs en gert er ráð fyrir að utanríkisráðherra skipi í nefndina að höfðu samráði við stjórn Útflutningsráðs. Lögbinding á skipan nefndarinnar skapar óþarfa formfestu og er tilgangur almennara og opnara orðalags að auka möguleika á aðkomu fleiri hagsmunaaðila og tryggja þannig enn víðtækari þátttöku á fundum nefndarinnar.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.