133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[22:17]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svo sem hægt að segja að maður geti fagnað því að eitthvað komi frá ríkisstjórninni. Síðast þegar við fjölluðum um þessi mál kom það sem ég kallaði bókhaldsfrumvarpið frá ríkisstjórninni. Út af fyrir sig var rétt að halda þarf utan um þekkingu á því hvað er að gerast í landinu, hvaða mengun er á ferðinni, hvað hún er mikil og frá hverjum hún kemur, til þess að menn geti stjórnað þessum málum ef þeir ætla að gera það. Töluvert var rætt um það á síðasta þingi hvað ríkisstjórnin ætlaði sér að gera í þessum málum og mjög spurt eftir því hvort menn ætluðu bara að bíða og sjá til hvað mundi gerast, hvað stóriðjan vildi.

Nú kemur frumvarp þar sem gert er ráð fyrir því að lögin um bókhaldið, sem voru samþykkt, falli inn í þann lagaramma sem hér er settur fram sem tillaga. Nú koma fleiri úrræði en þá. En hver eru þau í raun og veru? Full ástæða er til að menn velti fyrir sér hvort það sem hér er sett fram muni duga til þess að ná utan um vandann.

Ég er á þeirri skoðun að það geri það ekki. Einfaldlega vegna þess að ég virðist hafa aðra skoðun en ríkisstjórnin á því hver vandinn er. Ég tel að sá vandi sem þarf að leysa sé fólginn í því að til verði stefnumörkun sem sátt verði um til framtíðar og mér finnst hún ekki felast í þessu frumvarpi. Mér finnst hins vegar að þetta frumvarp miðist við það sem hægt er að kalla lágmarksviðleitni til þess að standa í fæturna gagnvart þeim alþjóðaskuldbindingum sem við höfum skrifað undir. Reyndar er það markmiðið sem sett er hér, með leyfi forseta:

„Markmið laganna er að skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.“

Vissulega má fagna því að menn skuli þó ætla að gera þetta.

Í 2. gr. frumvarpsins er talað um að lögin eigi að gilda um skráningu og bókhald og um losun gróðurhúsalofttegunda á landi og í mengunarlögsögu Íslands og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi. Nú hefur umræða um bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi ekki verið mikil hér á landi. Þó hefur borið á því upp á síðkastið að menn hafi áhuga á því að nota gróðursetningu og trjárækt aðallega til þess að vinna á móti mengun.

Ég er ekki sérfræðingur í þeim efnum en ég hef heyrt fólk sem telur sig hafa á þessu vit halda því fram að það sé tímabundin ráðstöfun að binda kolefni í gróðri. Það kolefni muni fyrr eða síðar skila sér út í andrúmsloftið. Þá er spurningin þessi: Hvenær gerist það? Það gerist t.d. ef menn höggva skóginn og brenna hann. Eða þegar gróðurinn fúnar, þá losna lofttegundirnar sem um er að ræða. Ég kann ekki skil á því en ég tel ástæðu til að menn fái svör við þeim spurningum. Ef hæstv. ráðherra hefur þau væri gott að heyra það.

Ríkisstjórnin spilaði um daginn út háleitum hugmyndum um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda til ársins 2050 og er gert ráð fyrir því að mengunin frá landinu verði 50–75% minni en hún var á árinu 1990. Það finnst manni nú vera æði stór biti, ef ég hef ekki misskilið það sem stendur á þessum blöðum, því að það stefnir í að útblástur margfaldist frá árinu 1990.

Ég held því ekki fram að þessi markmið séu ekki byggð á einhverjum góðum rökum og ég ætla ekki að setja fram þá skoðun að ekki sé hægt að ná þessum markmiðum. En ýmislegt hlýtur að þurfa til að koma og þá hlýtur það að vera fólgið í því að menn meti mjög vandlega þær aðgerðir sem ætlunin er að fara í. Menn hljóta þá m.a. að þurfa að meta hvernig t.d. gróðursetning skóga spilar inn í þetta allt saman.

Ég hef því til fróðleiks sett fram þá spurningu hvort menn hafi farið yfir það t.d. hvað binding í gróðri endist langt fram í tímann og hve stór hluti af lofttegundunum kemur þá út í andrúmsloftið aftur og hvernig það muni spila inn í umrædd markmið þegar fram líður.

Ég sagði áðan að ég hefði líklega aðrar skoðanir á því en ríkisstjórnin hver vandinn væri núna. Með því á ég við að frumvarpið gengur eiginlega út á það að menn geti staðið við þær skuldbindingar sem sjá má fram á á alþjóðavettvangi en samt verði opið fyrir aukningu á losun á gróðurhúsalofttegundum frá Íslandi svo lengi sem menn geta fengið keyptar heimildir frá löndum annars staðar. Úthlutunarnefndin, sem talað er um í frumvarpinu, hefur það hlutverk að úthluta þeim heimildum með þeim hætti að fyrstur kemur og fyrstur fær þangað til upp er urið. Það er aðferð sem menn hafa valið sér.

Með frumvarpi eins og þessu þyrfti að liggja fyrir stefnumörkun og vilji stjórnvalda til þess að hafa stjórn á hlutunum. Í hve mikla stóriðju hyggjast stjórnvöld leggja, hve mörg af þeim stóriðjuverum sem nú eru á teikniborðunum telur ríkisstjórnin að eigi að byggja? Á að byggja þau öll? Það hlýtur eiginlega að vera svarið nema ríkisstjórnin setji fram einhverja stefnu í þessum málum. Ekki er gert ráð fyrir því að ríkisvaldið hafi nein tök á því að ráða því hvort hér verði byggð fleiri iðjuver af þessu tagi. Þeir sem fá keypta raforku til þess að framleiða ál t.d. munu fá sjálfvirkt leyfi til þess ef þeir uppfylla þau skilyrði sem sett eru vegna mats á umhverfisáhrifum og annarra reglna. Önnur skilyrði eru ekki sett fyrir því að hefja rekstur ef allar loftslagsheimildir verða uppurnar sem úthlutunarnefndin hefur til staðar. Þá mega menn flytja inn eins mikið og þeir þurfa á að halda.

Spurningin hlýtur því að vera þessi: Hvernig getur það farið saman við þau markmið sem menn hafa sett hér, að minnka mjög mikið útlosun miðað við það sem var á árinu 1990, að atvinnurekstur í stóriðnaði á Íslandi sé svo gjörsamlega frjáls að því að byggja upp ný iðjuver ef raforka verður til staðar til þess að bræða álið? Ég átta mig ekki á því að það muni geta gengið. En það verður sjálfsagt útskýrt í umræðunni hvernig menn sjá þessa hluti fyrir sér.

Það eru ýmsir hlutir í þessu frumvarpi sem ég hef áhuga á að spyrja um. Til dæmis hér í 7. gr., þar er talað um að atvinnurekstri, samkvæmt 2. mgr., sé óheimilt að starfa á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 nema hann hafi aflað sér losunarheimilda eða lagt fram áætlun um hvernig hann muni afla sér losunarheimilda vegna þess tímabils sem áætlað er að reksturinn standi yfir og úthlutunarnefnd hefur fallist á.

Ég geri ráð fyrir því, þegar við erum að tala um dýr fyrirtæki eins og þessi, að menn þurfi að hafa langtímarekstur í huga þegar verið er að ákveða rekstur. Ég spyr því: Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir því að hafa aðeins lengra tímabil sem menn horfa til þegar verið er að ræða um þessa hluti? Ég vil einnig setja fram spurningu í sambandi við 8. gr. Þar stendur, undir fyrirsögninni Umsókn um úthlutun losunarheimilda, með leyfi forseta:

„Atvinnurekstur skal sækja um úthlutun á losunarheimildum til Umhverfisstofnunar eigi síðar en níu mánuðum áður en fyrirhugað er að starfsemin hefjist.“

Nú er aðdragandinn að slíkum atvinnurekstri miklu lengri en þetta. Ég spyr þess vegna: Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir því að aðilar sæki um þetta fyrr í ferlinu? Er ekki nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að þau viti af því með eins löngum fyrirvara og unnt er að fyrirhugað sé að losa út ákveðna mengun í landinu þannig að það sé þó að minnsta kosti hægt að sjá til þess að aðilum sé gerð grein fyrir því að þær fríu úthlutunarheimildir sem gert er ráð fyrir að nefndin úthluti séu ekki fyrir hendi? Atvinnureksturinn sem um er að ræða þyrfti að hafa tíma til að útvega sér aðrar heimildir eða að minnsta kosti ganga úr skugga um að heimildirnar verði með einhverjum hætti fyrir hendi. Mér finnst það stuttur tími sem talað er um.

Hvað varðar hina árlegu úthlutun nefndarinnar veltir maður því fyrir sér hvort gert sé ráð fyrir að aðilar öðlist einhvers konar rétt til þess að fá alltaf nýja úthlutun. Eru aðilar þá undir það seldir að nefndin sem úthlutar geri það samkvæmt einhverju fyrir fram ákveðnu kerfi sem veitir forgang að heimildum eða gerir hún það út frá þeirri stöðu sem er uppi þegar úthlutað er á hverju ári? Úthlutar hún kannski í prósentum til þeirra sem eru í atvinnurekstri á hverjum tíma þannig að það komi þá nokkurn veginn jafnt niður það sem upp á vantar ef úthlutunarheimildirnar duga ekki til?

Ég held að það væri gott ef við skildum þetta nokkurn veginn. Ég átta mig ekki alveg á því með hvaða hætti fyrirhugað er að standa að þessu. En það virðist vera nokkuð augljóst samkvæmt 11. gr. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Umsækjendur sem hafa þegar starfsleyfi og/eða eru komnir langt í undirbúningi framkvæmda skulu njóta forgangs við ákvörðun um úthlutun losunarheimilda í áætlun úthlutunarnefndar umfram aðra sem skemmra eru komnir í undirbúningi.“ — Það er sem sagt fyrstur kemur, fyrstur fær, sem á að gilda.

Málið verður aðeins flóknara þegar maður fer að skoða 12. gr. Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Atvinnurekstur sem er skyldur til að eiga losunarheimildir skal fyrir 1. maí ár hvert færa nægjanlega margar losunarheimildir í samræmi við skýrslu um losunarheimildir síðasta árs inn á sérstakan lokareikning í skráningarkerfi. Atvinnurekstri sem úthlutað er losunarheimildum er leyfilegt að færa ónotaðar heimildir á milli ára, enda fullnægi viðkomandi enn þá öllum skilyrðum varðandi úthlutun losunarheimilda.“

Mér finnst einhvern veginn að þessi réttur aðila til að færa losunarheimildir á milli ára geti nokkuð augljóslega kallað á hömstrun losunarheimilda. Aðilar muni sækja um meira en þeir þurfa og færa síðan heimildir á milli ára til þess að eiga þær uppi í erminni, getum við sagt. Hvers vegna ekki? Þetta eru fríar úthlutanir. Það er mjög eðlilegt að þessir aðilar muni sækjast fast eftir því að tryggja sér þær sérstaklega ef þeir hafa nú í huga að auka reksturinn einhvern tímann í framtíðinni.

Í lok 12. gr. er síðan sagt, með leyfi forseta:

„Ónýttar losunarheimildir atvinnurekstrar 31. desember 2012 verða eign ríkisins og bókfærðar sem slíkar í skráningarkerfi.“

Mér finnst þetta orðalag nokkuð athyglisvert. Það er sem sagt þannig að allar hinar losunarheimildirnar eru, þó ekki sé það sagt beint, eign þeirra sem hafa fengið þeim úthlutað. Íslenska ríkið ætlar að eiga afganginn sem verður árið 2012. Það er ekki að ástæðulausu að sú spurning vaknar hvort þetta muni auka kapphlaupið um að nýta allar mögulegar losunarheimildir fyrir árið 2012. Þær eru greinilega fríar þangað til. Ástæða er til að menn velti þeirri spurningu upp hvort þetta eitt og sér sé ekki ávísun á að allar þær losunarheimildir sem eru til staðar fyrir ekki neitt verði komnar í gagnið árið 2012 vegna þess að íslenska ríkið ætlar að eiga afganginn.

Í 14. gr. er þess getið, sem ég nefndi áðan, að fyrirtæki geti aflað sér losunarheimilda án úthlutunar. Það er eiginlega niðurstaðan af því sem menn sjá í lagafrumvarpinu. Ísland er opið. Gjörið þið svo vel. Það kann vel að vera að sumum finnist að þeir séu að leysa vanda jarðkúlunnar. En ég er á þeirri skoðun að (Forseti hringir.) það hljóti að þurfa nokkra umræðu hvort Ísland eigi að vera strompur fyrir útblástur (Forseti hringir.) vegna þess eins að menn vilja leysa heimsvandann.