133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[22:38]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég lauk ræðu minni áðan í miðjum klíðum og varð að sleppa því þá að ræða ekki ósvipaða hluti og hv. síðasti ræðumaður drap hér á. Ég tel að með frumvarpinu sé verið að láta líða hjá að nota tækifærið til að skapa hagrænan hvata til þess að draga úr losun og jafnframt kynni að vera að með frumvarpinu sé verið að leggja drög að eða setja á stofn kvótakerfi nokkuð líkt því sem við þekkjum eftir áralangar og áratugalangar deilur í sjávarútvegi þar eð ekkert gjald á að taka fyrir mengunarheimildirnar, þó að vísir kynni að skapast að einhvers konar markaði þar sem þau fyrirtæki sem verða eftir í kapphlaupinu þyrftu að kaupa kvóta að utan eða innan lands með tilteknum hætti. En úthlutunin sjálf, eins og gert er ráð fyrir henni á þeim tíma fram til ársins 2013, er án nokkurra möguleika á að skapa hagrænan hvata, eins og hún er í frumvarpinu. Mér virðist það vera rétt, svo ég leiðrétti sjálfan mig eða svari sjálfum mér úr fyrri ræðu minni, að það sé bann við sölu á losunarheimildum, eins og komist er heldur klaufalega að orði, með þessa einingu, ekki megi selja losunarheimildir og það bann megi lesa úr 3. mgr. 12. gr., um að ónýttar losunarheimildir verði eign ríkisins, þær megi sem sé ekki selja öðrum.

Það er auðvitað ljóst að ekki má eiga viðskipti með losunarheimildir eða losunareiningar úr íslensk-mónakóska kvótanum, að minnsta kosti ekki út fyrir ramma þess kvóta. Ekki er hægt að taka heimildir sem menn hafa fengið úr honum á Íslandi eða í Mónakó og selja þær til Ástralíu — ja, Ástralía er nú ekki gott dæmi í þessu efni, segjum til Þýskalands eða til Frakklands. Hitt hef ég reyndar ekki kannað hvort eitthvert bann sé við því að fyrirtæki sem fá slíkan kvóta, t.d. með árlegri úthlutun, geti selt hann hvert öðru. Því ætti umhverfisráðherra eða hennar fólk að geta svarað. Ég man ekki eftir að það sé bannað en það væri þó í áttina því að þá mundi skapast hagrænn hvati til þess að draga úr losun, það væri sem sé beinn hagnaður að því að losa minna en gert var ráð fyrir við úthlutunina.

Ég verð síðan að segja, þrátt fyrir það sem lesa má úr 12. gr., að ekki megi selja losunareiningu, þá hvílir ekkert viðskiptabann í Kyoto-bókuninni á kvótum sem settir eru í viðskiptalegt kerfi úr almenna kvótanum, úr losunareiningum úr almenna kvótanum. Það er ekkert slíkt bann fyrir hendi. Það þekkjum við í grannlöndunum að þar eru, eins og rakið er reyndar að hluta til í athugasemdum við frumvarpið, hafin viðskipti með kvóta. Ég sel það ekki dýrar en ég keypti og það gerði ég á netinu í dag, það mun vera nokkurn veginn 8 dollarar á tonnið. Það er auðvitað ekkert sem bannar það heldur, að ríkið selji fyrirtækjunum sjálfum þessa kvóta þó að hluti þeirra sé ekki framseljanlegur frá fyrirtækjunum. Þannig væri strax sköpuð ástæða fyrir fyrirtækin til að draga úr kvótakaupum sínum, að minnsta kosti hlutfallslega, draga úr þeim þannig að þeim sé kleift að losa sem allra minnst á hverja framleiðslueiningu. Engir slíkir hvatar eru í frumvarpinu, það vísar ekki fram á við. Það á heldur ekki að leysa þann vanda sem hér er fyrir hendi um losun gróðurhúsalofttegunda heldur er því einungis ætlað, eins og ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar, að leysa vanda ríkisstjórnarinnar, þann vanda að ríkið annars vegar standi ekki uppi með það að þurfa að kaupa sjálft kvóta fyrir þau álfyrirtæki sem hér vilja reisa iðjuver og hins vegar þann vanda sem við blasir í svari hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurn minni um daginn, sem endurtekin er í greinargerðinni, að þau álver sem nú standa til, ef stækkun Straumsvíkurversins verður að veruleika, fara fram úr íslensk-mónakóska ákvæðinu.

Úthlutunin er síðan sérstakt mál. Þar er verið að úthluta gæðum eða að minnsta kosti verðmætum, skulum við orða það, á óljósum forsendum. Þar eru lögmál kapphlaupsins en engar reglur eru settar um það einu sinni hver í raun og veru kemur fyrstur í mark eða réttara sagt hver kemur annar, þriðji, fjórði og fimmti í mark en þar getur munað á milli feigs og ófeigs vegna þess að á milli hins fjórða og fimmta getur þetta verið þannig að hinn fjórði fái allt gefins en hinn fimmti þurfi að borga. Ef ég væri umhverfisráðherra mundi ég ekki hlakka til þeirrar stundar að skilja á milli hins fjórða og hins fimmta vegna þess að frumvarpið gefur mér engar leiðbeiningar um það.

Síðan er þetta þannig, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á, að með 12. gr. er ekki annað að skilja en verið sé að skapa eign fyrir fyrirtækin í kvótanum á mjög svipaðan hátt og útvegsmenn telja að hafi gerst með sína eigin kvóta, sem þeir fengu úthlutað fyrst án greiðslu, skulum við orða það kurteislega, og halda því nú fram að það sé eign þeirra, og hún er það vissulega í reikningshaldi útgerðanna og gengur kaupum og sölum milli manna.

Það verður líka að bæta því við að engar reglur eru um annað en stóriðju. Ríkisstjórnin og ráðherrann hafa ekki stigið það skref að skylda önnur stórfyrirtæki en stóriðjuna til að skipta með sér kvótunum.

Það er afar athyglisvert, þótt smátt sé, fyrir áhugamenn um stjórnsýslu í umhverfismálum að úthlutunarnefnd sú sem umhverfisráðherra á að skipa, í henni eru þrír menn og umhverfisráðherrann hefur að vísu náð árangri í því að geta skipað þá nefnd en ráðherra er skylt að skipa formann hennar að tillögu iðnaðarráðherra, þannig að enn sýnir sig í frumvarpinu að forræði mála á umhverfissviði er því miður ekki í umhverfisráðuneytinu heldur oftar en ekki í iðnaðarráðuneytinu.

Það er himinn og haf á milli þessara ráðagerða og þeirra fyrirheita sem án framkvæmdaáætlunar eða annars en fagurra orða er getið um í stefnumörkun í loftslagsmálum sem tveir hæstv. ráðherrar skrifuðu undir fyrr í mánuðinum, og það er líka himinn og haf á milli þessa frumvarps og annars þess sem liggur á borðinu í loftslagsmálum eftir ríkisstjórnina og hæstv. umhverfisráðherra — sem ég veit að á ekki sjö dagana sæla í þessari stjórn — og á milli stefnu þeirrar sem við samfylkingarmenn höfum sett fram í þeim efnum þar sem við viljum stefna að verulegum samdrætti gróðurhúsalofttegunda, ekki fyrir árið 2050, þegar við verðum sennilega neðan moldar flest sem hér sitjum, heldur setja okkur takmark nær í tímanum og búa til innanlandsmarkað með þessi verðmæti, skapa hagrænan hvata og skapa siðferðilegan þrýsting til þess að við tökum þátt í lausninni á þessu vandamáli, loftslagsvánni, sem er helsta viðfangsefni í stjórnmálum og þjóðfélagsmálum okkar tíma. Varðar ekki bara pólitík, þannig að ég vitni í Al Gore á óskarsverðlaunahátíðinni, heldur líka þann siðferðisgrunn sem mannkynið stendur á.