133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[22:56]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er bara rétt hjá mér að í tengslum við þetta frumvarp er engin lína lögð um framtíðina. Ekkert er sagt um það hvað íslenska ríkisstjórnin eða hæstv. umhverfisráðherra vill að gerist á næsta tímabili eftir að Kyoto-tímabilið 2008–2012 er runnið út. En það eru auðvitað settir upp vegvísar. Slegnir eru naglar sem erfitt verður að komast fram hjá. Það er t.d. þannig að fyrirtæki sem hér fyrir eru fá ókeypis úthlutunarkvóta, önnur fá það ekki. Það er vandamál sem á eftir að teygja sig fram yfir þetta tímabil.

Það er líka þannig að samkvæmt 12. gr. virðast fyrirtækin eignast kvóta sinn og þau verða nú ekki glöð við það að þurfa að láta hann af hendi við upphaf árs 2013. Það er einnig svo að með þessum málatilbúnaði öllum saman verða álver boðin hér velkomin eða önnur stóriðja með sína losun. Þau þurfa að vísu að grípa til annarra ráða en að fá úthlutað ef þau verða ekki þeim mun fyrr í röðinni.

Það er líka þannig unnið í þágu framtíðarinnar að með túlkuninni á íslensk-mónakóska ákvæðinu frá Marrakesh verður staðan greinilega þannig við lok árs 2012, að losun samkvæmt því ákvæði hefur náð slíkum himinhæðum að það verður meiri háttar vandi að koma henni fyrir í byrjun árs 2013. Þess vegna er tekin ákaflega óábyrg afstaða sem á eftir að hafa áhrif á samningsaðstöðu Íslands fyrir næstu tímabil. Ég vil minna á lögfræðiálitið þýska sem ég las niðurstöðurnar upp úr áðan í því efni.