133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. umhverfisráðherra lætur þingheim heyra nokkur dæmi um stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Það sem ég sagði í ræðu minni var að fögur orð hæstv. ráðherra, þegar hún las upp úr þeirri stefnu, nægja ekki þegar ljóst er að ekki á að framfylgja greinargerð með frumvarpinu. Það á heldur ekki að framfylgja stefnunni sem við erum búin að undirrita á vettvangi Norðurlandanna. Því að í 1. gr. stendur að markmiðið sé að við stöndum við alþjóðlegar skuldbindingar okkar um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, eins og markmiðið er samkvæmt loftslagssáttmálanum. En síðan segir eftirfarandi í II. kafla í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Hægt er að afla fleiri losunarheimilda á tímabilinu með bindingu kolefnis með skógrækt eða annarri uppgræðslu eða með útvegun heimilda frá öðrum ríkjum samkvæmt svokölluðum sveigjanleikaákvæðum Kyoto.“

Hvernig var nú talað um þessi sveigjanleikaákvæði í aðdraganda lendingarinnar á íslenska ákvæðinu? Umhverfisverndarsamtök út um allan heim báðu samningamenn á vettvangi loftslagssamningsins þess lengstra orða að heimila ekki sveigjanleikaákvæðið sem væri fengið í gegnum bindingu með skógrækt eða landgræðslu. Hvers vegna? Vegna þess að skógur bindur ekki nema í skamman tíma. Og skógur bindur ekki nema ákveðnum forsendum og skilyrðum sé fullnægt.

Umhverfisverndarsamtök sögðu því allan tímann: Það er verið að skemma meginmarkmið samningsins með því að heimila nákvæmlega þetta sem íslensk stjórnvöld ætla að byggja alla sína stefnu á, að við getum bara aukið og aukið og plantað svo trjám til að redda okkur fyrir horn í ákveðinn tíma.

En það endar þannig að skógur sem plantað er fer að losa eftir ákveðinn tíma. Ríkisstjórnin er því að fara gegn náttúrulögmálunum með þessum sveigjanleikaákvæðum (Forseti hringir.) og er ekki að standa við meginmarkmið stefnu loftslagssamningsins.