133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:11]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist á máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að hún sé fyrst og fremst bara á móti Kyoto-bókuninni. Bara á móti Kyoto-bókuninni, og get ekkert að því gert.

Frumvarpinu er ætlað að tryggja að við förum ekki fram yfir skuldbindingar okkar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Við förum ekki yfir þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar. Ef einstök fyrirtæki fara yfir þær heimildir sem þau fá úthlutað bera þau sjálf ábyrgð á því og geta samkvæmt ákvæðum Kyoto-bókunarinnar og þeim ströngu skilyrðum sem þar eru sett, aflað sér kvóta með kaupum eða losunarheimildum, eða ráðist í landgræðslu eða einhvers konar skógrækt. Þetta eru reglurnar sem við erum að vinna eftir.

En varðandi hina háleitu stefnu Norðurlandaráðs held ég að ljóst sé að jafnvel á vettvangi Norðurlandaráðs þykjum við líka öðrum þjóðum fyrirmynd. Íslensk stefnumörkun í loftslagsmálum, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, er síst og jafnvel metnaðarfyllri en þessi sameiginlega stefna sem Norðurlöndin hafa sett sér um viðbrögð við loftslagsvandanum og aðgerðir gegn gróðurhúsalofttegundum.