133. löggjafarþing — 83. fundur,  2. mars 2007.

mannvirki.

662. mál
[00:24]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að mæla fáein orð um þessi tvö mál. Það er ágætt að þau eru kynnt á þessu þingi. Mér finnst hins vegar mjög ólíklegt að sú nefnd sem í hlut á geti haft skoðun á þeim flóknu málum sem hér eru á ferðinni á þeim stutta tíma sem eftir lifir af þinghaldi þennan veturinn. Ég hef ekki kynnt mér þessi mál með þeim hætti að ég geti fjallað um þau í heildina en mig langar að koma að fáeinum athugasemdum.

Í hinum miklu byggingarframkvæmdum sem standa yfir hér á landi, og sérstaklega á suðvesturhorninu, berast fréttir af því að ekki séu öll hús byggð af bestu gæðum. Tæknimaður, sem lét frá sér heyra fyrr í vetur, hélt því reyndar fram að upp undir 10% af því sem byggt væri væri ónýtt eða stórgallað og að gallar á byggingum á Íslandi hefðu aukist mjög í þeirri hrinu uppbyggingar sem nú er í gangi. Það er býsna vont ef satt er. Þetta frumvarp til laga um mannvirki er mjög mikilvægt, ef vel tekst til, til þess að tryggja eftirlit með byggingarframkvæmdum.

Það er einungis einn þáttur í því að vel sé staðið að byggingarframkvæmdum að hafa góðar reglur. Hitt er ekki síður nauðsynlegt að menn hugi að þekkingu og menntun þeirra aðila sem vinna þessi verkefni. Þar er ég sannfærður um að við höfum ekki staðið okkur sem skyldi á undanförnum árum. Full ástæða er til að nefna það hér þó að ég ætli ekki að fjalla nánar um það.

Mig langar til að beina einu atriði til nefndarmanna í sambandi við þetta mál. Ég tek eftir því við fljótan yfirlestur að verið er að gera mikilvæga breytingu á ábyrgð á byggingarframkvæmdum. Í 14. gr. frumvarpsins, þar sem talað er um ábyrgð eiganda mannvirkis, segir, með leyfi forseta:

„Eigandi ber ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.“

Síðan segir í umfjöllun um 14. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Í ákvæðinu er að finna þá meginreglu að eigandi mannvirkis beri ábyrgð á hönnun, byggingu og rekstri þess enda er það hann sem á mannvirkið og kostar gerð þess og rekstur.“

Á öðrum stað segir, með leyfi forseta:

„Þar sem eigandinn kann að vera aðili sem ekki kann skil á reglum um byggingarframkvæmdir þá er lögð á hann sú skylda að ráða til sín byggingarstjóra, sem uppfyllir hæfniskröfur og hefur starfsleyfi sem slíkur, og framkvæmir hann innra eftirlit eigandans við byggingarframkvæmdina frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram.“

Á enn öðrum stað í frumvarpinu er rík áhersla lögð á hlutverk byggingarstjórans við byggingarframkvæmdirnar sem eins konar umboðsmanns eiganda sem hefur eftirlit með því að aðrir sem að framkvæmdum koma sinni skyldum sínum.

Enn segir, með leyfi forseta:

„Byggingarfyrirtæki sem byggir í eigin nafni getur því jafnframt verið byggingarstjóri mannvirkisins séu framangreind skilyrði uppfyllt.“ — Þar á undan er því lýst.

Ég held að nefndin þurfi að skoða þetta. Að vissu leyti má líkja þessu við það að í stað þess að skipstjóri beri ábyrgð á siglingu skips geri útgerðarmaðurinn það. Ég er ekki sannfærður um að ábyrgðinni eigi alfarið að breyta með þessum hætti. Fram að þessu hefur ábyrgð á mannvirkjum og gerð þeirra verið á iðnmeisturunum sem bera ábyrgð á viðkomandi byggingum og eru líklega flestir kallaðir byggingarstjórar í dag. Ég tel að ástæða sé til að nefndin fari vandlega yfir það með þeim aðilum sem best þekkja hvort þarna geti verið á ferðinni leið sem geti reynst erfið í framkvæmd.

Menn munu sækja þann eiganda til saka sem átti bygginguna þegar hún var byggð og hann þarf þá að sækja til saka byggingarstjórann ef hann telur að hann hafi með einhverjum hætti ekki gætt þess eftirlits sem hann átti að hafa með höndum. En samt er talað um að ábyrgðin sé eigandans og það er ekki gott að einhver sem ekki hefur þekkingu, menntun eða vit á framkvæmdunum beri ábyrgðina. Það er a.m.k. umhugsunarefni og ég kem því hér með til skila að menn skoði þetta vandlega.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið. Ég tel að það þurfi mikillar skoðunar við í nefnd. Þessi mál eru ákaflega flókin og margt þarf að skoða og fræðast af þeim sem best til þekkja til þess að vel verði að því staðið.

Mig langaði að nefna eitt atriði í frumvarpi til skipulagslaga. Ég tek eftir því að þeirri landsskipulagsáætlun sem talað er um er ætlað að vera til tólf ára og hana á að endurskoða á fjögurra ára fresti. Ég vil koma því á framfæri hvað þetta varðar að ég tel að við áætlanir af þessu tagi verði menn að hafa í huga lengri tíma en tólf ár. Ég tel nauðsynlegt að annaðhvort séu sérstök ákvæði um lengra skipulag eða drög að lengra skipulagi. Helst þyrfti að hafa í huga 30 ára skipulag þar sem menn drægju upp helstu samgöngumannvirki og landnýtingarhugmyndir svo að ekki verði skipulagsslys af þeim ástæðum að menn hafi ekki gert ráð fyrir því að einhverja hraðbraut þyrfti hér eða þar eða jarðgöng í gegnum einhvern fjallgarðinn. Dæmin sanna að við þurfum að horfa til langs tíma. Þegar verið er að tala um landsskipulag finnst mér ástæða til þess að hafa þetta í huga.

Umræður um landsskipulag eru ákaflega hollar fyrir hv. alþingismenn. Þær munu örugglega draga fram það sem þeir hafa forsómað í gegnum tíðina og það er að taka á málefnum sveitarfélaga og skipulagi hvað það varðar. Við sitjum uppi með örsmá sveitarfélög og alls konar skipulagsslys sem hafa orðið vegna þess að verið er að skipuleggja lítil sveitarfélög hvert ofan í öðru eða sveitarfélög á litlum landsvæðum sem eru hvert ofan í öðru. Það þyrfti að vera hægt að leysa úr slíkum málum í landsskipulagi. Ég held reyndar að það sé betra að stemma á að ósi og sjá til þess að sveitarfélög séu a.m.k. í samræmi við viðkomandi landsvæði og séu þá miðuð við það að landslagsheildir séu undir einu sveitarfélagi. Þannig hefði verið hægt að koma í veg fyrir ýmis skipulagsslys sem hafa orðið og má koma í veg fyrir þau sem annars kunna að verða í framtíðinni.

Ég fagna því að komið er fram frumvarp af þessu tagi því að það mun örugglega kalla á slíka umræðu, en vil koma þessum skilaboðum til nefndarinnar sem fæst við þessi mál. Nefndin mun kannski ekki koma mjög mikið að þessum málum á því þingi sem nú stendur en væntanlega verða ýmsir sem setjast yfir þetta. Það er mjög þarft að gefa þeim málum báðum sem hér eru til umræðu góðan tíma til meðferðar í nefndinni. Þó svo að ýmislegt þurfi að fá betri framgang og það helst sem fyrst eru ekki tök á því að gera þessum málefnum góð skil. Þó að undirbúningur hafi verið góður eiga þeir sem bera ábyrgð á því að frumvarpið verði að lögum að vera vissir um að þeir hafi a.m.k. gert skyldu sína í því að kynna sér það sem lagt er til. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri.