133. löggjafarþing — 83. fundur,  2. mars 2007.

mannvirki.

662. mál
[00:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. umhverfisráðherra sé raunsæ þegar hún segir að tímans vegna náist sennilega ekki að vinna þessi mál í nefndinni. Ég sé ekki að nein von sé til þess í sjálfu sér, við höfum ekki einu sinni formann umhverfisnefndar hér til að fylgjast með þessum umræðum eða taka þátt í þeim. Ég sé ekki vilja til þess hjá samstarfsflokki Framsóknarflokksins að fara að vinna þessi mál af alvöru á þeim nefndadögum sem við eigum fram undan, enda erum við með fullar hendur af málum, t.d. Vatnajökulsþjóðgarð sem tekur talsverðan tíma í vinnu nefndarinnar. Ég held því að hæstv. umhverfisráðherra sé raunsæ hvað þetta varðar.

Varðandi ákvæðin um Árósasamninginn, þ.e. ákvæðin sem hæstv. umhverfisráðherra segir að séu í anda Árósasamningsins, þá vil ég leyfa mér að skilja orð hennar á þann veg að hún líti ekki svo á að hér sé verið að innleiða Árósasamninginn eða lögfesta þær tvær stoðir Árósasamningsins sem við eigum eftir að lögfesta, hvorki það sem hér er orðið í skipulagslögunum, þ.e. það sem varðar aðgang einstaklinga að ákvarðanatöku í skipulagsmálum eða umhverfismálum, né heldur það sem við töluðum um í fyrra málinu sem varðaði réttláta málsmeðferð.

Síðan vildi ég bara segja varðandi landsskipulagsáætlunina að það skiptir auðvitað verulegu máli að við séum að ná þessu svona heildstætt. Ég hefði talið fulla ástæðu til að geta rætt hér við hæstv. ráðherra og fleiri áhugasama þingmenn um verndar- og nýtingaráætlun, því að réttilega kemur sú áætlun, sem við höfum í raun og veru talað fyrir í öðrum tveimur frumvörpum fyrir skemmstu, inn á nákvæmlega þessi mál. Það skiptir verulegu máli að geta náð utan um þetta heildstætt til að sjá heildarmyndina og hvernig þetta allt saman tengist.