133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

670. mál
[10:37]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára á þskj. 1021, 670. mál.

Í dag, 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og það er afar vel við hæfi að hv. alþingismenn ræði jafnréttismálin á þeim merka degi. Ég leyfi mér hér með að leggja til að dagarnir 8. mars og 24. október, sem hefur markað sérstöðu hér á landi sem kvennafrídagur og vakið athygli um heim allan, verði á hverju ári helgaðir umræðu um jafnréttismál á Alþingi, annar hvor dagurinn eða báðir. Það gefur þingheimi og stjórnvöldum tækifæri til að taka stöðuna reglulega. Mér sýnist ekki veita af ef við ætlum að ná markmiðum okkar. En ég vík nú að því máli sem hér er til umræðu í dag.

Í 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, er kveðið á um að félagsmálaráðherra leggi fram, eigi síðar en ári eftir alþingiskosningar, tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn. Sú áætlun var lögð fram árið 2004 og gildir til maíloka árið 2008. Hér er lögð fram endurskoðun á þeirri áætlun. Áætlunin er byggð á gildandi áætlun og eru áherslur endurskoðunarinnar þær sömu og í fyrri áætlun. Felst hún að mestu leyti í að fylgja eftir og meta stöðu verkefna sem þegar hafa verið unnin. Verkefni sem er lokið hafa verið tekin út og nýjum verkefnum bætt inn þar sem við á. Einnig hefur tímaáætlunum einstakra verkefna verið breytt. Ítarlegar upplýsingar um einstök verkefni og stöðu þeirra koma fram í skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála sem lögð er fram samhliða þingsályktunartillögunni á þskj. 1022.

Hæstv. forseti. Áður en ég fjalla um einstök atriði í þingsályktunartillögunni mun ég fjalla almennt um stöðu jafnréttismála hér á landi. Jafnrétti kynjanna hefur verið í stöðugri þróun frá upphafi 20. aldar og þar unnu hetjur eins og Bríet Bjarnhéðinsdóttir gríðarlegt frumkvöðlastarf. Enda þótt ekki sé unnt að fullyrða að jafnrétti kvenna og karla hafi náðst á Íslandi getum við verið stolt af mörgum skrefum sem við höfum stigið í jafnréttisátt. Ég er nýkominn af fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York en Ísland skipar nú í fyrsta sinn sæti Norðurlandanna í nefndinni og ég var þar m.a. í góðum félagsskap nokkurra alþingiskvenna. Íslendingar hafa aldrei verið jafnáberandi á fundum (Gripið fram í.) kvennanefndarinnar og við efndum í fyrsta sinn til sérstakrar íslenskrar málstofu um jafnréttismál með þátttöku frjálsra félagasamtaka og sérfræðinga.

Þá vorum við jafnframt í forgrunni í sameiginlegri málstofu með Norðmönnum og Dönum þar sem fjallað var um fæðingarorlof feðra. Sérstaka athygli vakti yfir 90% þátttaka íslenskra feðra í fæðingarorlofi en frændþjóðir okkar á Norðurlöndum búa enn við mun minni þátttöku en við hér á landi.

Virðulegur forseti. Ég óska eftir að gera örstutt hlé á ræðu minni.

(Forseti (SP): Þingfundi er frestað í 10 mínútur.)