133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[10:56]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Aðdragandi þessa máls er þingmönnum væntanlega vel kunnur. Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu undanfarnar vikur um aðbúnað barna á árum áður á vist- og meðferðarheimilum á vegum ríkisins.

Fram hafa komið ákveðnar vísbendingar um að ríkisvaldið kunni að hafa brugðist þeirri frumskyldu sinni að standa vörð um velferð barna og ungmenna. Telur ríkisstjórnin því að henni sé skylt að hlutast til um ítarlega rannsókn á því sem átti sér stað á tilteknum vistheimilum á árum áður með það fyrir augum fyrst og fremst að leiða hið sanna í ljós. Ríkisstjórnin ákvað því á fundi sínum 13. febrúar sl. að láta fara fram rannsókn á því hvernig rekstri vistheimilisins Breiðavíkur var háttað á árabilinu 1950–1980, og eftir atvikum hliðstæðra stofnana og sérskóla þar sem börn dvöldu. Jafnframt var ákveðið að veita þeim sem þess óska sérfræðilega aðstoð við að takast á við minningar um þungbæra reynslu af dvöl á slíkum heimilum.

Frumvarp þetta er lagt fram til að skapa nauðsynlega lagalega umgjörð um rannsókn þá sem ákveðið hefur verið að fari fram. Er það nauðsynlegt til að tryggja þeirri nefnd sem ætlunin er að setja á fót aðgang að upplýsingum og varðveita nauðsynlegan trúnað um störf hennar.

Samkvæmt frumvarpinu eru markmið rannsóknarinnar að lýsa starfsemi viðkomandi stofnunar, leitast við að staðreyna hvort börn sem þar voru vistuð hafi sætt illri meðferð eða jafnvel ofbeldi, lýsa því hvernig opinberu eftirliti með viðkomandi starfsemi var háttað og leggja grundvöll að tillögum til stjórnvalda um frekari viðbrögð ef ástæða þykir til.

Verði frumvarpið að lögum mun forsætisráðherra skipa nefndina og setja henni erindisbréf þar sem afmarkað verður nánar til hvaða stofnana rannsókn mun taka og það tímabil sem til skoðunar er. Áformað er að fyrst um sinn verði nefndinni eingöngu falið að kanna starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur. Gert er ráð fyrir að þeirri könnun ljúki fyrir næstu áramót. Lagaramminn sem lagður er til er þó það almennur að ef ástæða þykir til verður hægt að fela nefnd sem skipuð er á grundvelli laganna rannsókn á öðrum vist- og meðferðarheimilum sem störfuðu á árum áður. Sérstaklega er tekið fram að heimild til að skipa slíka nefnd taki ekki til stofnana sem starfandi eru við gildistöku laganna.

Frú forseti. Þetta mál er flutt að gefnu dapurlegu tilefni eins og við þekkjum öll. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið að sinni en ég hygg að það njóti velvildar í öllum þingflokkum. Ég legg til að svo mæltu, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar að lokinni umræðunni.