133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[12:09]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Enn og aftur eru það fjölmiðlarnir sem vekja ríkisvaldið til aðgerða. Ég vil í upphafi leyfa mér að velta því fyrir mér þegar ég fékk um daginn svar við fyrirspurn um það hversu margir hefðu látist af völdum sjálfsvígs, upplýsingar frá landlæknisembætti. Á síðustu 25 árum eru skráðir 409 karlar sem hafa látist vegna sjálfsvíga. Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hér við þessar aðstæður hvort þar á meðal séu svokallaðir Breiðavíkurdrengir, menn sem hafa alist upp við erfiðar aðstæður á Breiðavíkurheimili, eins og hér hefur komið fram.

Varðandi það frumvarp til laga um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn ber að sjálfsögðu að fagna því. Hér hafa komið ýmsar athugasemdir við það og ástæða er til að velta fyrir sér hvort þetta gangi nógu langt.

Strax í 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra er heimilt að setja á fót nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Heimild þessi tekur ekki til þeirra stofnana sem starfandi eru við gildistöku laga þessara.“

Þó að sumir vilji kannski bíða eftir niðurstöðu þeirrar nefndar sem á að vinna samkvæmt þessu frumvarpi getur maður samt ekki annað en velt fyrir sér hvernig staðan sé í dag og hvort ekki sé ástæða til að skoða hana alveg sérstaklega. Þrátt fyrir að ég geri mér grein fyrir því að þetta frumvarp snúi fyrst og fremst að málefnum Breiðavíkur og hugmyndin sé að læra af þeim niðurstöðum sem hérna koma fram getur maður samt ekki annað en velt því fyrir sér, frú forseti, hvort ekki sé ástæða til að grípa strax til aðgerða og skoða þær stofnanir sem eru í gangi. Það segir jafnframt í c-lið 1. gr. varðandi markmið könnunarinnar og nefndarinnar:

„Að lýsa því hvernig opinberu eftirliti með viðkomandi starfsemi var háttað.“

Við munum að sjálfsögðu læra af þeim niðurstöðum sem þarna munu koma fram, en hvaða eftirlit er í raun og veru í dag? Hverjir standa að eftirliti, hvaða vistheimili eru starfandi? Þau eru væntanlega færri og smærri og þá jafnvel í þeim mæli að einstaklingar séu í umsjá á sveitaheimilum. Óneitanlega leiðir maður hugann að því hvernig eftirlitið sé í dag og þá ekki einungis á vistheimilum fyrir ófatlaða, heldur og fyrir fatlaða og börn með geðraskanir, börn sem t.d. hafa dvalið á BUGL og verið síðan send áfram.

Allt þetta leiðir hugann að því hvernig eftirlitið er í dag og jafnframt spyr maður sig enn og aftur um samvinnu milli ráðuneyta, t.d. félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Það kemur mjög oft fram á hinu háa Alþingi að ekki virðist vera næg samvinna á milli ráðuneyta. Það leiðir því miður af sér ýmislegt neikvætt og ég held að það sé ástæða til að skoða það sérstaklega í framtíðinni. Þá erum við kannski enn og aftur komin að þeim hugleiðingum hvort ekki eigi hreinlega að sameina þessi tvö ráðuneyti í eitt velferðarráðuneyti.

3. gr. fjallar um þagnarskyldu og hverjir eigi að veita nefndinni upplýsingar. Allt gott um það en þá komum við líka enn og aftur að þessari spurningu: Hvernig hefur þetta gengið fyrir sig? Okkur hafa borist þær upplýsingar að ekki hafi verið næg samvinna í gangi eins og varðandi Byrgið sem títt hefur verið nefnt og ekki ástæða til að rekja alveg í þaula en þar hefur t.d. geðlæknir upplýst að hann hafi komið með ábendingar til landlæknisembættis sem einhverra hluta vegna ekki var hlustað á. Ég leyfi mér jafnframt að upplýsa hér að varðandi Byrgið komu líka ábendingar frá ráðgjöfum SÁÁ sem fengu til umönnunar og meðferðar ýmsa þá einstaklinga sem höfðu dvalist í Byrginu. Þessir ráðgjafar lýstu áhyggjum eftir þær upplýsingar sem þeir fengu, t.d. af þeim konum sem höfðu dvalist þar. Enn og aftur leiðir maður því hugann að samvinnu, upplýsingaflæði innan heilbrigðiskerfisins alls og milli heilbrigðiskerfisins og félagsmálakerfisins eða ráðuneytanna tveggja. Ég held að það sé hreinlega spurning eins og með nefndina, að hún taki sérstaklega á því að skoða þetta ferli, samvinnu milli þessara tveggja ráðuneyta og jafnframt við landlækni sjálfan.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að nefndin skuli fjalla um hvaða lærdóm megi draga af niðurstöðum könnunarinnar og gera tillögur um úrbætur til að koma í veg fyrir brot á börnum í opinberri forsjá. Það stingur mig síðan hér í athugasemdum, með leyfi forseta:

„Þá skal nefndin leggja á það mat hvort og þá hvernig skuli brugðist við af hálfu stjórnvalda gagnvart þeim sem kunna að hafa í reynd sætt illri meðferð, ef könnunin leiðir slíkt í ljós.“

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég skil ekki alveg hvers vegna það eru einhverjar efasemdir um „hvort“ eigi að bregðast við af hálfu stjórnvalda. Ég held að það hljóti að vera skylda stjórnvalda að bregðast við ef það kemur í ljós að þessir drengir hafi verið beittir þessu ofbeldi sem komið hefur m.a. fram í fjölmiðlum og í viðtölum við marga þeirra og foreldra þeirra. Í mínum huga er ekki nein efasemd um „hvort“ eigi að bregðast við, vangaveltan er einungis hvernig. Mér finnst mjög ámælisvert, frú forseti, að það skuli koma fyrir þetta blessaða orð hérna, „hvort“.

Það þarf líka að bregðast við á þann hátt að hafa samband við aðstandendur drengjanna. Það þarf að skoða alveg sérstaklega lífshlaup þessara drengja sem eru orðnir fullorðnir menn í dag. Ég minntist hér áðan á dökka skýrslu um fjölda sjálfsvíga og síðan er líka spurning hvort þessir menn hafi leiðst út í afbrot, glæpi, kynferðisafbrot og þá erum við komin enn og aftur að því sem kemur m.a. fram í bók Thelmu Ásdísardóttur, Myndinni af pabba, þar sem hún og fleiri konur á Stígamótum gera athugasemdir við fyrningarfrest í kynferðisbrotamálum. Staðreyndin er sú að flest mál uppgötvast það seint, kynferðisbrot gagnvart börnum, eins og t.d. það sem hér um ræðir varðandi Breiðavík, að þegar það loksins uppgötvast er málið fyrnt og svartasti hlutinn af því er sú staðreynd að viðkomandi barnaníðingur er þá jafnvel farinn að brjóta á næstu kynslóð. Ég held að eitt það versta sem þessi nefnd gæti komist að væri að Breiðavík hafi mögulega búið til ofbeldismenn.

Það segir hér í athugasemdum með 5. gr. að könnunin skuli „í fyrstu taka til starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur … og eftir atvikum hliðstæðra stofnana og sérskóla“. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það verði framhald á þessu. Það má vera að það sé rétt hjá forsætisráðherra að klára þetta mál fyrst og læra af því hvernig eigi þá að vinna með önnur hliðstæð mál, en ég tel ekki síður varðandi framhaldið að menn þurfi að skoða stofnanir sem eru starfandi í dag.

Í ræðu áðan var minnst á grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær eftir Ásu Hjálmarsdóttur sem er móðir eins drengs sem dvaldist í Breiðavík. Þar talar hún um ástæðuna fyrir því hvers vegna barnaverndarnefnd hafi tekið drenginn af henni. Sökin var fráskilin og fátæk fimm barna móðir. Þetta leiðir hugann að skýrslunni um fátækt sem við ræddum hér nokkuð vel á Alþingi um daginn, en þar kom m.a. fram að í mestri hættu á að lenda í fátækt á Íslandi, fátækt sem vissulega er staðreynd, eru einmitt einstæðar mæður. Enn og aftur sannast þær bágu þjóðfélagsaðstæður sem þær búa við.

Varðandi frekari viðbrögð og framhaldið, frú forseti, tel ég nauðsynlegt, eins og ég nefndi áðan, að kanna lífshlaup þeirra manna sem voru drengir og dvöldust í Breiðavík. Að sjálfsögðu er algjörlega tvímælalaust að þeim eigi að veita aðstoð, meðferð og skaðabætur ef þörf þykir. Enn og aftur velti ég því upp að það eru líkur á því að þessir menn hafi lært þarna ofbeldi og mögulega stunda það einhverjir í dag og þess vegna er afskaplega þýðingarmikið að veita þeim meðferð og að sjálfsögðu á að vera algjörlega skilyrðislaust að ríkið ætli sér það.