133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[13:30]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram umræðum um frumvarp til laga um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir fyrr í dag. Mig langar til að spyrja hæstv. forseta hvort forsætisráðherra verði ekki viðstaddur umræðuna til enda. Ég ætlaði að bæta nokkrum atriðum við þá umræðu sem fór fram í morgun sem ég tel ástæðu til að forsætisráðherra, sem er með þetta mál í sinni forsjá, fái að heyra. Ég sé að hann er ekki mættur hér.

(Forseti (JóhS): Forseti vill geta þess að hæstv. forsætisráðherra er vant við látinn og getur ekki verið við lok umræðunnar.)

Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort hún viti hvort ráðherra hafi tök á því að koma síðar í dag til að klára þessa umræðu. Hvernig hefur hann hugsað sér að ljúka umræðunni, ætlaði hann ekki að taka til máls að nýju?

(Forseti (JóhS): Forseti veit að hæstv. forsætisráðherra getur ekki verið við þessa umræðu þó að það sé síðar á þessum degi. Forseti mælist til þess við hv. þingmann að hún haldi engu að síður áfram máli sínu þannig að hægt sé að ljúka þessu máli. Það er brýnt að koma því til nefndar. Forseti mun koma þeim tilmælum til forsætisráðherra að hann verði þá viðstaddur 2. umr. þannig að hv. þingmaður geti átt orðaskipti við ráðherrann þegar málið kemur aftur til 2. umr.)

Já, ég mun fara yfir þessi atriði hér og treysta því að ráðherra kynni sér hvað hefur farið fram í umræðunni eftir að hann hvarf úr þingsal.

Virðulegi forseti. Mig langaði að taka undir nokkur atriði sem hafa komið hér fram og sem snúa að gagnrýni á þetta frumvarp. Menn hafa gagnrýnt að það eigi einungis við eitt heimili, Breiðavík, en það er full ástæða til að skoða þetta mun víðar. Einnig hefur verið gagnrýnt að þetta snúi aðeins að börnum. Aðalástæðan fyrir því að ég kem hérna upp er að ég er sammála þeirri gagnrýni. Nýverið átti ég úr þessum stóli orðastað við hæstv. félagsmálaráðherra vegna fatlaðra. Við vitum að fatlaðir eru margir hverjir alltaf börn, þeir sem þroskast ekki eða þeir sem eiga við þannig fötlun að stríða eru alltaf eins og börn þó að þeir verði fullorðnir. Við verðum að skoða heimili sem fatlaðir eru sendir til, t.d. til sumardvalar. Ég hef fengið athugasemdir frá aðstandendum fatlaðra barna sem telja að eftirlitið sé ekki nógu mikið, ekki sama eftirlitið með slíkum stofnunum og öðrum stofnunum sem eru fyrir heilbrigð börn. Það var líka bent á að ekki væru sömu kröfur gerðar til þeirra sem taka fötluð börn í vist og þeirra sem taka heilbrigð börn. Þetta mál verður að fara yfir. Það þarf að skoða. Það er ekki boðlegt að ekki séu gerðar sömu kröfur til leyfa til að setja á laggirnar slíka vist. Ég vonast til þess að hæstv. forsætisráðherra og hv. allsherjarnefnd skoði þetta í umfjöllun um málið í nefndinni.

Það er einnig mjög mikilvægt að gerðir verði þjónustusamningar vegna allra slíkra heimila, að gæðaeftirlit fari fram og annað eftirlit með að þjónustusamningarnir séu uppfylltir. Í þessu máli er verið að líta til baka og skoða það sem hefur farið úrskeiðis en við verðum líka að horfa fram á við og tryggja að hlutir eins og þeir sem hafa verið hér til umræðu í samfélaginu, Breiðavíkurmálið, Heyrnleysingjaskólinn og Byrgið, endurtaki sig ekki, sérstaklega ekki þegar fatlaðir eiga í hlut því að það er sá hópur sem er hvað varnarminnstur. Hann er varnarlaus gagnvart alls kyns ofbeldi eins og hefur sýnt sig í umræðunni um Heyrnleysingjaskólann.

Mig langar líka að nefna í þessari umræðu að það er ljóst að fara þarf mjög gaumgæfilega yfir þessa þætti og samskipti Barndaverndarstofu og sveitarfélaganna vegna þess hvernig málum er háttað. Mig langar til að vísa í viðtal við Braga Guðbrandsson, ég held að það hafi verið í Blaðinu um helgina, þar sem hann nefnir ýmsa vankanta á kerfinu í dag sem við þurfum að taka á til að svona hlutir endurtaki sig ekki. Það kom mér á óvart þegar hann lýsti því hvernig háttað væri vist fyrir börn sem barnaverndaryfirvöld væru að finna heimili fyrir. Hann sagði að þá væri nánast eins og uppboð á því hverjir gætu tekið börnin að sér fyrir sem lægst verð. Það minnti svolítið á uppboð hreppsómaganna á árum áður þó að ég ætli ekki alveg að bera það saman. Ég hef áhyggjur af því hvernig þessum málum er háttað í dag og það er full ástæða til að fara yfir þessa þætti, hvort sem það eru vistheimili fyrir börn, fyrir fatlaða sem eru jafnvel orðnir fullorðnir, stuðningsforeldra o.s.frv.

Auðvitað veit maður að flestir hugsa vel um þessi börn en til að koma í veg fyrir að einhverjir svona hlutir gerist á að vera eftirlit, það eiga að vera samræmd skilyrði fyrir því hverjir fá heimildir til að vista börn og annast þau.

Svo langar mig til að nefna annað viðtal við Braga Guðbrandsson í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann vitnar í grein Ásu Hjálmarsdóttur í Morgunblaðinu í gær. Sú grein var mjög átakanleg lesning og sýnir hvað það er brýnt að þetta mál komist í gegn, að það verði skoðað, a.m.k. með Breiðavík, þannig að þeir foreldrar og þær mæður sem voru í sporum Ásu, börnin tekin af þeim og send í þessa hroðalegu vist, fái skýringar á því hvernig stóð á þessari framkomu við þær.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég er alveg sammála því að þetta er mjög brýnt mál sem þarf að fara til nefndar og ég vonast til þess að allsherjarnefnd taki þannig á málinu að þetta verði víkkað svo að fleiri heimili verði skoðuð og það verði til þess að félagsmálayfirvöld samræmi kröfur og auki eftirlit með þeim sem taka að sér börn annarra til vistunar.