133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:03]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Pólitískt markmið um að halda byggð um Ísland allt kallar á stuðning við atvinnulíf og nýsköpun í sveitum. Um það er engin spurning í mínum huga og þann stuðning á að efla, ef eitthvað er. En þessi samningur og vangaveltur um fyrirkomulag stuðningsins kalla á umræður um markmið slíks stuðnings og aðferðir til að koma honum út til dreifbýlisins í sveitirnar. Þess vegna hlýtur sú spurning að vakna sem ég beini til hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvaða árangri telur hann að síðasti samningur hafi skilað? Og hvaða ávinning má hafa af þessum samningi, sérstaklega með tilliti til þess að einungis um 20% af útsöluverði á lambakjöti skilar sér til bænda? 300 kr. fær bóndinn fyrir framleiðslu sína frá sláturhúsunum sem er 20% af meðalútsöluverði. Hvað verður um mismuninn? hljótum við að spyrja hæstv. ráðherra. Við hljótum að spyrja hann um ástandið á greininni og hverju þessi samningur breyti.

Hin pólitíska spurningin sem vaknar við yfirferð á samningnum snýr að útflutningsskyldunni. Nú er útflutningsskyldan leið til að markaðsstýra. Segja má að hún tryggi bændunum hærra verð fyrir vöruna og minna framboð á markaði. Það er eitt af því sem útflutningsskyldan hefur í för með sér og hefur markaðsstýrandi áhrif. Þess vegna hlýtur það að vera spurning til hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann hafi metið áhrifin af afnámi skyldunnar og hvort ekki hafi komið til umræðu að halda inni möguleikanum á útflutningsskyldu ef mál þróuðust þannig. Hvaða áhrif telur hann að útflutningsskylduafnámið árið 2009 hafi á greinina og stöðu hennar, sem er nú býsna veik í sjálfu sér?