133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:07]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vonandi verður samningurinn, verði hann samþykktur hér, til þess að efla sauðfjárræktina. Ekki veitir af því að árangur hæstv. landbúnaðarráðherra í að efla hag sauðfjárbænda er að sjálfsögðu afskaplega dapurlegur. Þetta er ein fátækasta stétt landsins og hægt að fullyrða að hæstv. landbúnaðarráðherra og ríkisstjórninni hafi mistekist hvað þetta varðar.

Ég spyr því enn hæstv. landbúnaðarráðherra: Hver verða áhrifin af afnámi útflutningsskyldunnar á hag sauðfjárbænda, þar sem afnám hennar verður til að lækka verð á lambakjöti? Það getur verið markmið í sjálfu sér og þess vegna getur vel borgað sig að afnema útflutningsskylduna. En hæstv. ráðherra verður að svara því hver áhrifin verða á greinina. Þau eru augljóslega umtalsverð en hann getur ekki vikið frá umræðu um þennan samning án þess að útskýra þau fyrir Alþingi, áhrif afnáms útflutningsskyldunnar á þá sem framleiða kjötið og fá svo lítið sem 20% af útsöluverði fyrir. Það er náttúrlega skammarlegt og hlýtur að kalla á rannsókn. Af hverju er svo skakkt og vitlaust gefið?