133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:08]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bændur og afurðastöðvar fara með markaðsmál sín. Það kann að vera að bændur fái of lítið og það verða þeir auðvitað að fara yfir í sínum ranni. Yfir það verður farið. Við vorum að lækka matarskatt 1. mars.

Hv. þingmaður verður sér nú enn einu sinni til skammar þegar hann fer að tala um fátækt bænda og sauðfjárbænda. Hagur þeirra hefur eflst á síðustu árum. Hér voru fyrir síðasta búvörusamning eilífar umræður um fátækt bænda … (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Hvaða vitleysa er þetta?) Haltu áfram, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og vertu þér til skammar úr þínu sæti ef þú vilt. (Gripið fram í.) Þú hefur ekki rétt til þess samkvæmt þingsköpum.

(Forseti (RG): Gefið ræðumanni hljóð.)

(Gripið fram í.) Þú vilt brjóta lögin. Þú hefur ekki rétt, samkvæmt þingsköpum.

Ég vil bara segja að sem betur fer hefur hagur sauðfjárbænda verið að batna og hagur bænda almennt hefur verið að batna. Tækifæri þeirra hafa aukist og sauðfjárbóndinn sækir tekjur sínar í margar áttir. Hann er útivinnandi, er með auðlindir í sínu landi, hann er kúabóndi, hann er ferðaþjónustubóndi, hann sinnir mjög mörgu. Eins og hjá landsmönnum öllum hefur hagur bænda eins og allra stétta og allra Íslendinga verið að batna. En þessi samningur mun tryggja að hann batni enn frekar. Og bið ég hv. þm. Björgvin Sigurðsson að spara stóru orðin við þessa umræðu. (BjörgvS: Ráðherrann er bændum til skammar.)