133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:37]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get verið sammála um margt í ræðu hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur áðan en þó ekki að öllu leyti, t.d. tel ég mjög mikilvægt að samningurinn nái fram að ganga núna, að það eigi ekki að draga það fram yfir kosningar og bændur leggja mjög mikla áherslu á að það verði gert.

Hún nefndi að hún vildi auka stuðning við sauðfjárbændur en hún vildi ekki hafa það með eins gegnsæjum og beinum hætti og gert er í dag heldur ætti það að vera eins og hjá Evrópusambandinu þar sem allur stuðningur við bændur er mjög ógagnsær. Þar er ég henni ekki sammála. Ég tel einmitt að sú leið sem við höfum farið á Íslandi, að vera með beingreiðslur og beinan stuðning við bændur hafi í rauninni verið það besta sem við gerðum. Áður fyrr var það þannig að stuðningurinn fór til milliliðanna en ekki til bændanna. Með beingreiðslum fer stuðningurinn beint til bóndans þar sem hann getur þá hagrætt hjá sér en ekki í milliliðina þar sem stuðningurinn kemur ekki við bóndann. Ég er algjörlega ósammála Evrópusambandinu með styrki út á landsbyggðina þar sem ekki er nokkurt gegnsæi í.

Ég tel að þessi búvörusamningur sé mjög góður að mörgu leyti og mjög mikilvæg undirstaða fyrir dreifbýlið. Það er því miður oft talað þannig hér í þingsölum að það hafi bara akkúrat ekkert gerst í landbúnaði. Það hefur orðið gríðarleg þróun, sauðfjárbúin eru í mikilli þróun, þau eru stækkandi og að vera að tala alltaf um fátækt bænda, það er bara liðin tíð.