133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:40]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gleðst yfir því að heyra að hv. formaður landbúnaðarnefndar var giska ánægður með ræðu mína áðan. Hún fjallaði m.a. í andsvari sínu um þá áherslu sem bændur leggja á að samningurinn verði samþykktur núna. Ég hef heyrt það líka og ég skil af hverju og ég var einmitt að fjalla um það m.a. í ræðu minni áðan. Það er vegna þess að það er búið að hræða bændur og það er illa gert. Það er nefnilega þannig að hér á Alþingi Íslendinga njóta bændur víðtæks stuðnings og skilningur ríkir á aðstæðum þeirra um allt land og mikilvægi þess sem þeir eru að gera. Það er því illa gert að hræða bændur en það hefur tekist, því miður. Við vitum alveg hverjir það voru sem þar fóru fremstir í flokki og hver ástæðan var fyrir því að svo var gengið fram.

Formaður landbúnaðarnefndar talaði líka um framleiðslutengda styrki og taldi þá mjög góða. Það er tegund af styrkjum sem eru á undanhaldi og slíkir styrkir munu verða bannaðir í framtíðinni. Það er því eitthvað sem við ættum að vera að hopa frá en efla þess í stað fjölbreyttar atvinnugreinar í sveitum. Það gerir Evrópusambandið með mörgum mismunandi samningum og styrktilboðum og það tel ég til fyrirmyndar.