133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:44]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum hér að ræða sauðfjársamning. Mér finnst að nokkuð hafi skort á þekkingu á eðli sauðfjárræktar sem atvinnugreinar í málflutningi margra þingmanna. Sauðfjárræktin er nefnilega allt annars konar atvinnugrein og lýtur öðrum lögmálum en framleiðsla í ýmsum öðrum landbúnaðargreinum. Mér finnst margt í málflutningi manna hafa verið með þeim hætti að þeir skilji það ekki. Það er afar mikilvægt að menn skilji grunnforsendurnar áður en farið er að álykta.

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir segir að hún vilji ekki samninginn í gegnum þing fyrir kosningar. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt skilið að hún vilji ekki afgreiða samninginn núna. Sé svo þýðir það óvissu fyrir bændur, algjörlega ljóst, það er mikil óvissa og hvað vill hv. þingmaður þá í staðinn ef ekki á að samþykkja þennan samning á þessu þingi?

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann, sem mér fannst tala með útflutningsskyldu í fyrri parti ræðunnar þar sem hv. þingmaður talaði um of mikla kjötframleiðslu. Hvað er of mikið af framleiðslu í tonnum talið? Mig langar gjarnan að vita það. Hvað er of mikið?

Síðan er það spurningin sem þarf að ræða frekar um samkeppni innbyrðis innan kjötgreinanna. Hvað finnst hv. þingmanni? Mér fannst að hv. þingmaður gerði sér ekki grein fyrir því að þetta er einn kjötmarkaður og á honum þurfum við að lifa og vinna og þess vegna þurfum við að átta okkur á því hvaða áhrif útflutningsskyldan hefur.

Mig langar að vita í lokin, hæstv. forseti: Er það ekki rétt skilið að í lok (Forseti hringir.) ræðunnar hafi hún talað um að útflutningsskyldan væri vitlaus?