133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:09]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt, ég tel það mjög óvarlega farið að taka allar þessar heimildir út og hafa ekki þann varnagla sem ég var að skýra hér áðan vegna þess að enginn maður getur vitað hvað bíður okkar á næstu þrem árum. Við verðum að vera viðbúin því þegar flestar spár ganga allar út á að menn reikna með því að kjötverð muni lækka hér verulega, þá er mikil nauðsyn á því að hafa slíkan varnagla.

Ég hef hins vegar enga heimsendaspá verið með varðandi breytingar á styrkjum. Ég fór aðeins yfir það sem eru staðreyndir þessa máls og menn mega vita hver niðurstaðan hefur alltaf orðið þegar þessi aðferð frá Brussel er notuð, að taka þannig jaðarbyggðirnar beint úr sambandi, hafa ekki framleiðslutengt, þá hefur það alltaf undir öllum kringumstæðum gengið upp að byggðirnar hafa dáið.