133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:17]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir ágæta ræðu áðan um sauðfjársamninginn. Fram kom hjá hv. þingmanni að hann hafði ákveðnar áhyggjur af svokallaðri útflutningsskyldu, þar sem landbúnaðarráðherra hefur verið heimilt að ákveða hversu há prósenta skuli fara á erlendan markað.

Hv. þingmaður boðaði það að hann mundi kynna breytingartillögu hvað þetta frumvarp varðar. Nú langar mig að spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson hvort sú leið kæmi ekki til greina að annaðhvort Bændasamtökin eða Landssamband sauðfjárbænda fengju þennan rétt þannig að ríkið væri ekki að taka ákvarðanir fyrir eina starfsgrein í landbúnaðinum þannig að starfsgreinin sjálf geti tekið þær ákvarðanir. Þeim rétti yrði því með þessum samningi og lögum vísað til samtaka bænda.