133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:20]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andstaða mín til Evrópusambandsins eða inngöngu Íslands í það hefur ekki á umliðnum árum mótast af viðhorfi til sauðfjárræktar, það eru allt aðrir og stærri hlutir sem þar eru. Fyrst og fremst hefur það verið vegna þess að ég m.a. hef haft áhyggjur af ríkissjóði sem þyrfti að borga um 15–17 þús. milljónir á ári í jöfnunarstyrkina til hinna fátæku þjóða í Austur-Evrópu og er skammarlegt að segja frá þessu en þetta er svona samt. Ég hef margsinnis greitt atkvæði með sauðfjársamningum sem eru ekki framleiðslutengdir nema að hluta. Það er alveg hárrétt. Í þeim samningi sem núna liggur fyrir er heilmikið af greiðslum sem ekki eru framleiðslutengdir. Ég mun greiða honum atkvæði. Þannig hefur verið samið og ég hef staðið að því sem stjórnarþingmaður að styðja það.