133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:21]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Hér er til umræðu samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Það er eðlilegt að menn fari víða í slíkri umræðu enda um að ræða hluta af byggðaaðgerðum. Það er líka eðlilegt að gerðar séu athugasemdir við að byggðaaðgerðir séu ekki skoðaðar í heild. Hér erum við með einn þátt sem snýr að sauðfjárræktinni, vissulega mikilvægan þátt, en það verður að segjast að hugmyndaflugið hefur ekki ráðið för við meðhöndlun þess fjár sem hér er um að ræða.

Það væri hægt að leita víða fanga, víða um lönd þar glímt hefur verið við álíka vandamál, þ.e. að tryggja fjölbreytni í landbúnaði, fjölbreytni í búsetu og í atvinnulífi í dreifbýli. Hér hafa menn fest sig í ákveðnum farvegi og virðast eiga erfitt með að komast úr honum. Það er eðlilegt að taka fram, eins og hér hefur komið fram hjá flestum ef ekki öllum ræðumönnum sem hér hafa talað, a.m.k. frá flokkssystkinum mínum sem hér hafa haldið ræðu, hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur og Jóhanni Ársælssyni, að enginn þingflokkur á þingi vill ekki halda áfram stuðningi við landbúnað. Spurningin er um hvernig að verki er staðið. Það er auðvitað eðlilegt að vakin sé athygli á því að þrátt fyrir það sem gert hefur verið undanfarin ár, sem byggir á svipuðum þáttum og sá samningur sem hér er til umfjöllunar, er eðlilegt að velta fyrir sér árangrinum.

Hæstv. landbúnaðarráðherra fullyrti að staða sauðfjárræktarinnar hefði eflst og batnað mjög. Vissulega er ýmislegt til í því. Það er t.d. ljóst að dregið hefur úr framleiðslu lambakjöts í landinu. Það var full ástæða til þess. Það var offramleiðsla sem kom engum til góða. (Landbrh.: Neyslan hefur aukist.) Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að um leið og dregið hefur úr framleiðslunni hefur neyslan aukist og hefur ýmislegt orðið til þess. Hluti af því sem menn hljóta að horfa til er að gera ýmislegt með markaðssetningu og við höfum auðvitað séð ýmsar breytingar á því sem eru til bóta.

En þrátt fyrir þetta hljóta menn að velta fyrir sér árangrinum af því að hann er ekki bara, það er ekki bara hægt að horfa á að einhverjir sauðfjárbændur hafi það örlítið betra nú en fyrir einhverjum árum. Mér fannst hins vegar skorta að hæstv ráðherra kæmi fram með tölur um hve mikið hagur sauðfjárbænda lagast miðað við aðra. Ég er því miður hræddur um að árangurinn hafi ekki verið eins mikill og hæstv. ráðherra lét í skína. Það hlýtur að vera umhugsunarefni ef hann hefur ekki verið nægjanlegur hvort það sé verið að fara rétta leið.

Þá kem ég að hinu, sem hlýtur að skipta miklu máli líka. Hverju hefur þetta skilað okkur í verði til neytenda eða er það ekki hluti af þessari mynd að lagfæra þá stöðu? Ég hélt að við værum öll á því að matarverð þyrfti að lækka. Hæstv. ráðherra minnti á að gerð hefði verið tilraun til þess um síðustu mánaðamót og á auðvitað eftir að koma í ljós hvernig það skilar sér. En við hljótum líka að velta því fyrir okkur, þegar við erum að vinna að slíkum samningi, að sá endi skili líka árangri, þ.e. að hægt sé að lækka matarverðið, það sé hægt að lækka verðið á þessari vöru því það er að sjálfsögðu hluti af tilgangi slíks samnings þó það sé ekki nefnt í markmiðunum og ýmsir hafa bent á að það vanti auðvitað inn í að hagsmunir neytenda séu þarna með. Þetta fjármagn er líka hugsað til að lækka eða tryggja að verð á þessum vörum sé þannig að neytendur geti notið þeirra. Það er eðlilegt og ætti að gera árangursmat á þessum þáttum.

Þá komum við að því sérkennilega vinnulagi hæstv. ráðherra, sem ég trúi að hann geri meðvitað, að koma með jafnstórt mál og þetta inn í þingið rétt fyrir þinglok. Það kallar auðvitað á að það vinnst ekki eins góður tími og ella til að fara yfir málið. Eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á er auk þess búið að gera samning við bændurna, búið að undirrita samning af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þannig að í raun og veru stendur þingið frammi fyrir gerðum hlut. Það er búið að ganga frá þessu og skuldbinda næstu stjórn til að standa við þetta. Bændur eru búnir að greiða atkvæði um samninginn, búnir að samþykkja hann miðað við útreikninga hæstv. ráðherra með 90% fylgi. Það er greinilega ánægja með samninginn af hálfu bænda. Þess vegna kemur á óvart að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson leggi sérstaka áherslu á að útflutningsskyldan verði af tekin. Maður hefði búist við því að bændur hefðu átt að vekja sérstaka athygli á því, ef þeir væru á móti því að taka hana af, en með 90% stuðningi við samninginn er vonlaust að lesa það úr atkvæðagreiðslunni. Það ber auðvitað að halda því til haga sem maður telur jákvætt. Ég held að þar sé verið að stíga jákvætt skref vegna þess að það er auðvitað ekki hlutverk okkar að greiða niður lambakjöt fyrir fólk í öðrum löndum, nema það væri hluti af þróunaraðstoð sem vissulega gæti komið til greina. En þá væri eðlilegt að fjármagna það með öðrum hætti. Það er hins vegar allt annar hlutur að við greiðum niður kjötið fyrir okkur. Það kemur neytendum til góða og er eðlilegt.

Ég sagði áðan að ég hefði viljað önnur vinnubrögð við þetta. Ég vil tína örlítið fleira til í þeim efnum vegna þess að ég held að það sé hluti af okkar vanda gagnvart landsbyggðinni, það er þessi bútasaumur í byggðamálum. Hér er sem sagt einn búturinn sem er sérstaklega tekinn út úr, einn hópur bænda, sauðfjárbændur. Í gildi er annar samningur við mjólkurframleiðendur. Byggðastofnun er síðan með ýmislegt í gangi og það eru gerðir vaxtarsamningar hér og vaxtarsamningar. En það er engin heildarstefna, engin samræming hv. þm. Halldór Blöndal. Það skortir hjá hæstv. ríkisstjórn sem hv. þingmaður hefur stutt nokkuð lengi og fer trúlega að verða nokkur leiður á. (HBl: Það var öðruvísi þegar ég var landbúnaðarráðherra. Þá var ákveðin stefna.) Hér kemur frá hv. þingmanni nokkuð kröftug ádeila á hæstv. núverandi landbúnaðarráðherra því hv. þingmaður bendir á að nú sé stefnuleysi allsráðandi í landbúnaðarráðuneytinu en það hafi verið annað í tíð hv. þingmanns (Landbrh.: Hann sagði þetta ekki.) Hv. þingmaður kallaði þetta fram í, hæstv. ráðherra. Ég er eingöngu að enduróma það sem hv. þingmaður sagði en ekkert út af fyrir sig að mæla sjálfur hvað er rétt í orðum hv. þingmanns. Þetta voru orð sem hv. þingmaður lét falla og ég á erfitt með að staðfesta það því að hv. þingmaður kom hér inn og er horfinn jafnharðan. Þetta var bara ábending frá hv. þingmanni og ég þyrfti að leggjast í meiri rannsóknir til að geta staðfest eða andmælt þessum orðum hv. þingmanns. En eins og við þekkjum hefur hv. þingmaður mikla reynslu (Landbrh.: Það man enginn hvenær hann var landbúnaðarráðherra.) og gífurlega þekkingu á þeim sviðum sem hann einbeitir sér að. En hæstv. ráðherra tilkynnir að enginn muni hvenær hv. þingmaður hafi verið landbúnaðarráðherra. Ég get staðfest að minni mitt nær svo langt aftur. Ég trúi því að hv. þingmaður muni sjálfur eitthvað eftir því en ég efast ekkert um að hæstv. landbúnaðarráðherra er löngu búinn að gleyma því hvenær hv. þingmaður var landbúnaðarráðherra, en nóg um það.

Stefnuleysið er ekki eingöngu bundið við landbúnaðarráðuneytið og enn síður við hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég er að tala um heildarstefnumörkun ríkisstjórnarinnar í málefnum landsbyggðarinnar. Þar skortir á og ég hef áður bent á það. Ég tel eðlilegt að sá málaflokkur verði eins og áður var undir forsætisráðuneytinu. Það er hlutverk forsætisráðuneytisins að samræma hluti og það væri eðlilegra að forsætisráðuneytið hefði með málaflokkinn að gera. Byggðamál koma jú við sögu í nær öllum ráðuneytum. Landbúnaðarráðuneytið tengist því að sjálfsögðu en nú fer iðnaðarráðuneytið með byggðamál. Það er afar sérkennilegt að eitt fagráðuneyti sé með slíkan málaflokk og svo víðfeðman. Fagráðuneyti vinnur ekki samræmt við öll hin ráðuneytin og ég tel þetta hluta af vandanum. Það er alltaf verið að bútasauma hlutina gagnvart landsbyggðinni.

Ég sagði áðan að í landbúnaðarmálum, samningsmálum og styrkjamálum væri víða leitað fanga. Í byggðamálum eru jú víða í Evrópu slík kerfi. Við þurfum ekki að fara lengra en til Noregs, sem er í svipaðri stöðu og við og ekki í Evrópusambandinu. Þeir hafa farið í kistu Evrópusambandsins og tekið ýmislegt af þeirra stefnumálum til að bæta stöðu landsbyggðarinnar og til að bæta stöðu landbúnaðarins. En hér er eins og það ríki trúarbrögð um að hér þurfi menn alltaf að finna hjólið upp sjálfir. Varðandi það að hafa ekki nægjanlegt árangursmat á þeim hlutum sem gerðir hafa verið þá tel ég einkennilegt hve litlar breytingar eru gerðar á þessum samningi. Þess vegna hafa menn auðvitað bent á að ýmislegt megi betur fara.

Það er líka rétt að vekja athygli á því að í samningnum er fyrirvari vegna samningaviðræðna sem í gangi eru á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Auðvitað er eðlilegt að menn hafi slíkan fyrirvara vegna þess að þar mun á samningstímabilinu trúlega verða gengið frá samningum sem væntanlega setja okkur í það hlutverk að þurfa að gera breytingar á þessu. Þess vegna hefði verið æskilegt að stíga einhver skref í þá átt sem væntanlega hefðu getað auðveldað aðlögunina. Auðvitað þarf að skoða alla þessa þætti í samhengi og það er eðlilegt að menn velti líka fyrir sér verndartollunum sem koma verulega við sögu. Þá blasir við, þegar heildarmyndin er skoðuð og það hefur komið mörgum á óvart, að sauðfjárræktin lendir í þeirri stöðu að fá hvað minnstan stuðning. Það er oft talað eins og sauðfjárræktin fái mesta stuðninginn innan landbúnaðarins, en þegar þetta er borið saman í heild, verndartollar og annað tekið og það reiknað í samanburðarfræðum sem notuð eru víða um heim til að bera saman, þá kemur sauðfjárræktin neðst, þ.e. með minnstan stuðninginn. Hvíta kjötið, ef ég man þetta nú rétt og hæstv. landbúnaðarráðherra leiðréttir mig ef ég er eitthvað farinn að ruglast í því ég hef ekki skoðað þetta um skeið. Hvað hefur mestan stuðning? Kjúklingakjötið, kjúklingaframleiðslan var með hvað mestan stuðning þegar verndin er skoðuð og síðan svínakjötið. Því næst var það sauðfjárræktin, sem var þá neðst í þessum skala. Það er eðlilegt að við skoðum þetta í samhengi.

Herra forseti. Ég sagði áðan að enginn þingflokkur á Alþingi teldi ekki að styðja ætti íslenskan landbúnað og það er yfirlýst stefna okkar flokks að styðja eigi íslenskan landbúnað og búsetu í sveitum. En við leggjum ekkert síður þunga áherslu á lækkun matarverðs til íslenskra neytenda. Þetta hefur auðvitað einkennt málflutning okkar þrátt fyrir að sumir hafi reynt að snúa út úr honum og lagt mikla áherslu á að það að matarverð lækki sé einhver árás á bændastéttina. Það er auðvitað af og frá. Það eru sameiginlegir hagsmunir íslenskra neytenda og íslenskra bænda að við getum haldið matarverði sem lægstu. Allir íslenskir neytendur vita það um íslenskar afurðir að gæðin eru það mikil að ég held að íslensk framleiðsla þurfi ekki að óttast aukna samkeppni í þessum þáttum. Ég held að gæðin muni tryggja stöðu íslenskra matvæla. Þess vegna er eðlilegt að við reynum að lækka matarverðið. Það mun að ýmsu leyti auka neyslu á íslenskum landbúnaðarafurðum. Ég trúi því að hæstv. ráðherra sé mér fyllilega sammála um það. Hæstv. ráðherra hefur lagt mikla áherslu á gæði hinnar íslensku framleiðslu og ég held að hann hafi lög að mæla í þeim efnum.

Það er auðvitað eðlilegt að við reynum að koma þessari ágætu framleiðslu á markað erlendis. Þá eigum við auðvitað að einbeita okkur að því að það sé gert á markvissan hátt og kjötið selt sem vara í hæsta gæðaflokki, selja það verslunum sem einbeita sér að slíku hráefni. Hér eru auðvitað miklir möguleikar sem við eigum að einbeita okkur að en herra forseti. Ég vil endurtaka að ég tel að það eigi að reyna að haga vinnubrögðum með öðrum hætti gagnvart slíkri samningagerð. Í fyrsta lagi eigum við að reyna að horfa heildstætt á hlutina. Í öðru lagi væri eðlilegt að finna ferli þar sem fleiri kæmu að slíkri samningagerð en eingöngu fulltrúar ríkisvaldsins.

Það er ekki eðlilegt að við gerð stórra samninga sem eru gerðir til langs tíma séu eingöngu aðilar í þeirri ríkisstjórn sem situr við völd þegar slíkir samningar eru gerðir. Það er eðlilegt að reyna að finna stærri samnefnara þegar ríkisstjórn er á sínum síðustu metrum. Undanfarna daga hefur jafnvel litið út fyrir að hún væri á sínum síðustu klukkustundum. Er eðlilegt að binda ríkisstjórnir, jafnvel tvær næstu ríkisstjórnir eins og þessi samningur gerir, með samningum? Þá er auðvitað eðlilegt að fleiri komi að borðinu. (Landbrh.: Hverjir?) Hæstv. ráðherra spyr: Hverjir? Hæstv. ráðherra, við vitum að það eru nokkrir þingflokkar á Alþingi. Það er ekkert óeðlilegt að t.d. sé undirnefnd við samninganefndina sem mynduð væri þverpólitískt þannig að upplýsingastreymið væri til staðar. En ég veit það að hæstv. ráðherra skilur ekki slíkt og veit að það yrði flóknara og erfiðara. Hæstv. ráðherra hefur setið nokkuð lengi sem landbúnaðarráðherra, svo lengi að hann man ekki einu sinni eftir því að nokkrir aðrir landbúnaðarráðherrar hafa verið. Það er auðvitað miklu eðlilegra að hæstv. ráðherra ákveði þessa hluti sjálfur. En það er óeðlilegt að gera slíka samninga upp á slíkar upphæðir til svo langs tíma án aðkomu Alþingis að málinu á annan hátt en að standa frammi fyrir gerðum hlut.

Það er í raun engu hægt að breyta. Þá væri verið að svíkja samninga sem búið er að skrifa undir og við vitum auðvitað að það verður ekki leyft. Ríkisstjórnarmeirihlutinn er auðvitað, þrátt fyrir það að þetta standist lög og hefðir, á gráu svæði og ekki með vinnubrögð í hæsta gæðaflokki. Það væri eðlilegt að finna einhvern flöt á þessu en þetta er því miður hluti af þróun á ýmsum sviðum.

Það er einkenni ríkisstjórna sem setið hafa oft og lengi og hafa náð að baða sig í völdunum að gleyma því gjarnan að Alþingi er á bak við þær og lýðræðið kallar oft á annað en einföldustu leiðina Við höfum fengið að sjá þetta áður. Við þekkjum þetta t.d. mjög vel í fjárlaganefndinni. Nefndin stendur fyrir orðnum hlut í nær öllum málum. Þingflokkar ríkisstjórnarinnar hafa í raun og veru verið tamdir þannig að þeir hafa misst nær öll völd. Ríkisstjórnarræðið er algert og trekk í trekk koma fréttir af því að það hafi jafnvel verið sett lög á ríkisstjórnarfundum.

Ráðherrar koma af ríkisstjórnarfundum og hefja miklar kynningar á málum sem þeir hafa fengið samþykkt í ríkisstjórninni og tala sumir hæstv. ráðherrar oft og tíðum eins og það sé búið að samþykkja hlutina, það sé ekkert eftir. Það sé einn þröskuldur í því, þ.e. að koma málum í gegnum ríkisstjórn. Ég held, herra forseti, að slíkir hæstv. ráðherrar þurfi á því að halda að fá verulega aðvörun þann 12. maí næstkomandi.