133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:44]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki mikið að því gert þótt hæstv. ráðherra heyri illa og misskilji yfirleitt allt sem sagt er. Mér þykir þó fulllangt gengið þegar hæstv. ráðherra kemur hér strax í kjölfar ræðu minnar. Ég hefði skilið það ef hæstv. ráðherra hefði komið eftir mánuð eða þrjá eða í haust einhvern tímann og misminnt eitthvað af því sem ég sagði á þessari stundu. (Gripið fram í: Ef hann hefði verið úti á túni.) Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra hefur drukkið allt of lítið af drukknum sem hann dreypti á á Akureyri fyrir nokkru. Hér hefur eitthvað skolast verulega til í höfði hæstv. ráðherra, ég verð bara að segja það. Hann heldur því fram að ég hafi sagt að það væri bændum að kenna að hér væri hátt matvælaverð, það er algjör öfugsnúningur, hæstv. ráðherra.

Ég sagði hins vegar að það væri sameiginlegt hagsmunamál okkar að lækka matarverðið og að þegar við gerðum svona samning þyrftum við að velta fyrir okkur árangrinum í báðum endum. Það að nokkrum manni detti í hug að bændur fái of mikið fyrir afurðir sínar — hæstv. ráðherra veit mætavel að bændur fá ekki það verð fyrir lambakjötið sem neytendur borga fyrir það í verslun. Því fer víðs fjarri. Það er örlítið brot sem bændur fá, (Gripið fram í.) 20% segja sumir. (Gripið fram í.) Það talar ekki nokkur maður um að bændur fái of mikið fyrir afurðir sínar, ekki nokkur maður. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann segja það. Ég veit því ekki á hvað hæstv. ráðherra hefur verið að hlusta. Það er einhver fjósbygging sem hæstv. ráðherra hefur líklega byggt sjálfur og er með einhver hljómflutningstæki sem spila eitthvað fyrir hann sem ekki nokkur maður segir nema hann fari í einhver gervi sjálfur og haldi hinu og þessu fram.

Ég átta mig ekki heldur á því hvar ég kom að því að ég héldi því fram að það væru einhverjar útflutningsbætur. Þetta er bara einhver allt önnur ræða sem hæstv. ráðherra er að svara. Ég kem áfram í andsvör við hæstv. ráðherra þó svo að hann sé að veita andsvör við einhverri allt annarri ræðu en ég hélt hér.