133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:03]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Landbúnaðarráðherra kippir sér ekki upp við frýjunarorð. Ég hygg að hann sé ekki þekktur fyrir skapvonsku og menn viti að hann hefur létta lund (ÖS: Þú veist hvernig við viljum hafa þig. Brosandi.) en getur svarað fyrir sig. (ÖS: Glaðan, kátan.) Nú gerðist það hér í útflutningsskyldunni að leiðtogi lífs hv. þingmanns, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, áttaði sig gjörsamlega á hvað var að gerast. Í fyrsta lagi stæðist það ekki WTO-samninga framtíðarinnar. Það væri mikilvægt fyrir atvinnugreinina að bera ábyrgð á sínum málum sjálf án þess að landbúnaðarráðherra væri að grípa inn í það, og að samningurinn býr bændur undir það með fjármagni inn í samninginn. Þetta kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hann er nánast eini þingmaður Samfylkingarinnar sem — jú, hér hélt ágæta ræðu hv. þm. Jóhann Ársælsson sem skildi þetta mál alveg. Það er mjög mikilvægt að bændur búi sig undir að þeir fá þarna aðlögunartíma, þeir hafa útflutningsskylduna næstu tvö ár og verða svo að mæta hinu nema ef til alþjóðlegra samninga kemur þá getur það breyst.

Á þeim tíma sem ég hef verið landbúnaðarráðherra hefur efnahagur bænda vaxið mjög að verðleikum. Jarðarverð hefur hækkað, eignir hafa hækkað, menn eru í allt annarri stöðu. Atvinnutækifærum hefur fjölgað. En það sem glæsilegast er, hv. þingmaður, er að þessi samningur og sá síðasti stuðla að sömu þróun í sauðfjárbúskapnum og í mjólkinni, að menn sérhæfa sig. Það er mikið af fjárhúsum í byggingu í dag, enginn var í því áður. Ungt, glæsilegt fólk ætlar að gera þetta að atvinnu sinni, aðalatvinnu og kannski einu atvinnu, þannig að sama þróunin er í gangi undir þessum samningum að fleiri og fleiri sjá tækifæri til að hafa sauðfjárræktina fyrir aðalatvinnuveg sem var ekki fyrir átta árum.