133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:07]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að núna — miðað við það sem hv. þingmaður sagði fyrr — er hann þó allt í einu farinn að lýsa því að kannski eru góðir hlutir að gerast. Þrætti fyrir það fyrir tveimur klukkustundum, allt var á vonarvöl. Nú er hann þó búinn að hitta unga bændur sem eru að fara að byggja upp, sjá þetta sem framtíðaratvinnumöguleika og viðurkennir marga góða hluti. Ég segi bara: Þakka þér fyrir það, hv. þingmaður.

Jarðarverðið getur vissulega verið ógnun en ég er líka klár á því að af mörgum ástæðum hafa bændur getað bætt stöðu sína mikið. Jarðir hafa verið stórar, þeir hafa getað fest í jörðum sínum einhvern hluta, fólk eignast heilsárshús, sumarbústaði, selt jafnvel úr jörðinni og bætt fjárhag sinn, land sem var lítils virði til búskapar fyrir þá kannski. Þeir eru miklu betur settir. Þetta er að gerast, þetta er þróun sem er að stórbæta stöðu bænda.

Ég hef ekki treyst mér til að ganga í það frekar en í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu að heimta að bændur gefi eftir hlut af jörðum sínum, þær verði bara lækkaðar í verði með lögum. Hins vegar eru Bændasamtökin að fara að skila af sér könnun um þróunina sem mjög náið er fylgst með af okkur í landbúnaðarráðuneytinu. Þar kemur t.d. fram, gagnstætt allri umræðu hér, að ekki er samþjöppun í eignum á jörðum eins og haldið var fram. Hins vegar hefur jarðareigendum á Íslandi fjölgað gríðarlega. Það er vegna þess að þéttbýlisbúar elska sína sveit, þeir eru að kaupa jarðir, þeir eru að flytja út í sveitirnar.

Í haust kom hingað glæsilegur maður, Íslendingur sem býr á Nýja-Sjálandi, Valdimar Daðason. Hann fór um landið og sagði að íslensk sauðfjárframleiðsla ætti gríðarlega framtíð fyrir sér. Hann sagði að á tíu árum sæi hann gríðarlegar breytingar í rétta átt. Hann var gestur í landinu sem hann þekkti og sá þá þróun sem hefur orðið í sauðfjárræktinni síðustu árin. Hann taldi Ísland eitt af tíu bestu sauðfjárræktarlöndum (Forseti hringir.) heimsins væri það skoðað.