133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:28]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Við ræðum um frumvarp um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, sem er einfaldlega kallað sauðfjársamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtakanna.

Sú umræða sem hér hefur átt sér stað hefur um margt verið merkileg og sitt sýnist hverjum. Sumir hafa gagnrýnt gildistíma samningsins og hvenær hann er gerður, á síðustu dögum hæstv. ríkisstjórnar. Menn gagnrýna að þetta sé gert svona seint og að þetta ætti frekar að vera verkefni nýrrar ríkisstjórnar, að gera samning til starfstíma síns, þ.e. fjögurra ára. Fram hefur komið að þetta gildir ekki aðeins allt næsta kjörtímabil, eftir kosningarnar 12. maí heldur einnig helminginn af þarnæsta tímabili.

Ég tek undir þessa gagnrýni en ég tek það skýrt fram að það á ekki endilega við um samninginn sem hér um ræðir. Þetta snýst um önnur stór mál sem eru skuldbindandi langt fram í tímann. Ég ætla ekki að eyða meira af tíma mínum í að fjalla um það en ég vona að ég tali nógu skýrt hvað það varðar að gagnrýnin snýst ekki eingöngu um þennan samning.

Mikið hefur verið rætt um stöðu sauðfjárbænda í dag, afkomu þeirra og annað. Í því sambandi vil ég, virðulegi forseti, segja að ég er þeirrar skoðunar og hef alla tíð verið, að afkoma sauðfjárbænda sé ekki góð og að afurðaverð til þeirra lágt. Verð fyrir lambakjötið út úr búð á Íslandi, sem menn vilja margir hverjir segja að sé hátt og okkur finnst það hátt, er 1.500–1.700 kr. að meðaltali fyrir mismunandi hluta af skrokknum. Í athugun minni frá því síðastliðið sumar og í blaðagrein sem ég skrifaði í framhaldi af því komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta háa verð er alls ekki bóndanum að kenna. Blessaður bóndinn fær ekki nema um 310 kr. fyrir framlag sitt eða kíló af lambakjöti. Í raun standa íslenskir neytendur í mikilli þakkarskuld við sauðfjárbændur fyrir að búa til þetta frábæra kjöt og taka ekki meira fyrir það en raun ber vitni. Fyrir vikið er ljóst að aðrir aðilar en sauðfjárbóndinn maka krókinn á vegferðinni frá haga til maga, svo vitnað sé í orð sem hér hafa fallið.

Því ber auðvitað líka að halda til haga, virðulegi forseti, að bóndinn fær beingreiðslur. Athugun mín í sumar leiddi í ljós að bóndinn fær um 275 kr. á hvert á kíló ef beingreiðslunum er deilt niður á heildarþunga dilkakjöts en er í raun 247 kr. á hvert kíló ef kindakjötsframleiðslan öll er tekin inn. Það sem út úr þessari óformlegu könnun minni kom var eins og ég sagði að bóndinn fær 310 kr. fyrir hvert kíló eða um 4.700 kr. fyrir hvern 15 kg skrokk. Þegar ég skoðaði þetta þá trúði ég því vart. Síðan koma beingreiðslurnar eins og ég hef getið um. Könnun mín leiddi í ljós að ófrosinn og niðursagaður 15 kg skrokkur gat kostað rétt í kringum 23 þús. kr. úr búð. Verðgildi framleiðslu bóndans hafði sem sagt aukist um rúmar 18 þús. kr. eða rúmlega 400% sem þýddi það að bóndinn fékk aðeins 20% af útsöluverði.

Virðulegi forseti. Þetta litla dæmi sýnir og staðfestir það sem ég var að segja áðan, að hátt verð er ekki bóndanum að kenna. Ég spurði í greininni: Hver fær mismuninn? Ég hvatti til þess í lok greinarinnar að einhver svaraði því. Ég fékk svar frá einum í blaðagrein. Það var fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, Ari Teitsson, sem skrifaði. Hann gagnrýndi helst hvernig ég skipti niður lambsskrokknum. Ég hugsaði því með mér að eingöngu væri bitamunur á greinunum, í orðsins fyllstu merkingu.

Ég tók dæmi af bónda sem legði inn 300 lömb að hausti eða í kringum 4.500 kg af kjöti. Bóndinn fengi 1,4 millj. kr. fyrir innleggið og 1,2 millj. kr. í beingreiðslum, eða samtals 2,6 millj. kr. í heildartekjur. Það átti sem sagt að duga bóndanum og fjölskyldu hans til lífsviðurværis, rekstrar og viðhalds húsakosts og tækja. Ég spurði hvort þetta hljómaði freistandi og hvort einhver vildi taka yfir slíkan rekstur, hvort hætta væri á yfirtöku, annaðhvort vinveittri eða óvinveittri. En það var nú ekki.

Virðulegur forseti. Hér kemur fram svart á hvítu, miðað við þetta dæmi, að það er ekki við bóndann að sakast. Ég fékk líka upplýsingar um að sláturhúsið tók 160 kr. fyrir kílóið. Þá er þetta komið í um 470 kr. Þá stendur eftir mismunurinn upp í 1.500–1.700 kr., þ.e. úrvinnslan og smásalan fær mismuninn. Spurningunni um hvort álagningin hafi aukist eða minnkað get ég ekki svarað þó að ég hafi ákveðnar grunsemdir um það. Mér til mikillar undrunar sá ég, eftir að hafa ritað þessa grein, að verð á þessum afurðum úr sömu búð er í dag, níu mánuðum eftir slátrun og eftir lækkun á matarskatti, ekki mikið lægra. Ég held að það hafi ekki skilað sér allt of vel til neytandans. Ég sé a.m.k. nokkrar tegundir af lambakjöti sem standa í stað eða hafa nánast ekki lækkað sem nemur matarskattslækkun. Nokkrir vöruflokkar í frosinni vöru hafa hækkað sem ef til vill má skýra með því að á hana hafi lagst geymslukostnaður.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég sagt hafa hvað samninginn sem hér er varðar. Í honum liggja vissulega, eins og talað er um, miklar peningar og hann er stuðningur við þessa atvinnugrein. Hún hefur þurft á stuðningi að halda sem fer á ýmis veikustu svæða landsins. Má í þeim efnum tala um þetta sem nokkurs konar byggðastyrki.

Ég hef tekið eftir því að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur nokkrum sinnum farið í andsvör við ágæta flokksbræður mína í þingsal sem hafa komið í umræðuna í dag vegna þess að umræðunni hefur fyrst og fremst verið haldið uppi af þingmönnum jafnaðarmanna. Aðrir hafa varla tekið til máls en þó einn eða tveir úr stjórnarliðinu. Þá hefur mönnum verið tíðrætt, m.a. hæstv. landbúnaðarráðherra um að við teljum að það sé bóndanum að kenna hve hátt vöruverðið er. Svo er ekki. Sennilega er kerfinu í heild sinni um að kenna og í raun er erfitt að sjá hvernig þeir fjármunir sem ríkið veitir í greinina eru notaðir, hvort þeir eru notaðir skynsamlega eða óskynsamlega frá haga til maga.

Í þessu sambandi vil ég, virðulegi forseti, taka það skýrt fram að samningurinn hefur mikið verið ræddur og flokkaður undir byggðastyrk, sem styrk til greinar sem hefur þurft að styrkja í fjölmörg ár. En þar á móti kemur að ýmislegt sem ákveðið er á hinu háa Alþingi íþyngir mjög atvinnurekstrinum. Ég vil líta á þetta sem atvinnurekstur, þegar maður skoðar stöðu sauðfjárbænda, að bændurnir verði flestallir að sækja sér aðra vinnu. Þetta er hálfgert hobbí sem verður að sjálfsögðu að þakka bændum fyrir, að búa til þetta heimsins besta lambakjöt og taka nánast ekkert fyrir það, eins og ég sagði áðan. Þeir sækja sér vinnu annað, jafnvel um langan veg eða eftir vegleysum vegna þess að ríkið hefur ekki byggt upp almennilega vegi í sveitum þeirra. Þannig þurfa sauðfjárbændur að ná sér í aðrar tekjur til að hafa í sig og á og sjá fyrir fjölskyldu sinni.

Af því að hæstv. landbúnaðarráðherra er hér, framsóknarmaðurinn sjálfur og varaformaður Framsóknarflokksins, get ég ekki látið hjá líða að nefna að hann tók þátt í því á hinu háa Alþingi að innleiða nýja tilskipun frá Evrópusambandinu og breyta raforkulögum ekki alls fyrir löngu, sem m.a. hefur haft í för með sér, samkvæmt svari hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formanns Framsóknarflokksins, Jóns Sigurðssonar, að 25% raforkunotenda hefðu fengið á sig hækkun á raforkuverði eftir að raforkulögunum var breytt. Hver skyldu það vera, virðulegi forseti, þessi 25% sem lentu í verstu hækkuninni? Jú, bændur og fólk í dreifbýli. Ég skil vel að hæstv. landbúnaðarráðherra gangi úr salnum undir þessum hluta ræðu minnar. Ég hefði talið æskilegt að hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins hlustaði einnig á þennan hluta ræðu minnar.

Það er kannski talandi dæmi, virðulegi forseti, að varaformaður Framsóknarflokksins gangi úr salnum þegar að umræðu um þetta kemur og ber þó að virða það ef hæstv. landbúnaðarráðherra skammast sín fyrir þær aðgerðir. (Gripið fram í.) Ég tek eftir því að hæstv. landbúnaðarráðherra kemur í dyragættina og segir að hvar sem hann sé staddur þá hlusti hann á mig. Það er ágætt að heyra. Ég vona að hann heyri þá það sem ég ætla að segja, að raforkuhækkunin hefur komið allra verst niður á bændum, sauðfjárbændum. Hún hefur komið verst niður á þeim sem síst skyldi. Af þeim 25% raforkunotendum sem fengu hækkun ítreka ég voru fjölmargir bændur og fólk í dreifbýli, sem mátti minnst við því að fá á sig þá hækkun. Þetta hefur stórhækkað rekstrarkostnað búanna og gert rekstur þeirra erfiðari, sem var kannski slæmur fyrir.

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt það og ætla að segja það einu sinni enn að versta dæmið sem ég veit um er frá aðila úti á landi sem hefur sent mér reikninga sem sýna svart á hvítu að orðið hafi 60% hækkun á raforkuverði. Ég hef sagt það áður að Alþingi var blekkt viljandi eða óviljandi hvað varðar raforkutilskipunina með gögnum sem komu til iðnaðarnefndar. Ekki alls fyrir löngu hitti ég mann sem gaf mér upplýsingar um, ég segi það alveg hiklaust, að blekkingin sem fólgin var í breytingunni hafi ekki verði óviljandi, hún var viljandi. Það eru stór orð en ég get staðið við þau hvar sem er.

Jafnframt má geta þess, virðulegi forseti, að hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir breytingu á þungaskatti yfir í olíugjald. Bændur fengu afslátt af þungaskatti áður en hafa ekki fengið afslátt af olíugjaldinu. Rétt er að geta þess að stjórnarmeirihlutinn hefur fellt breytingartillögu frá jafnaðarmönnum um að bændur fái til baka það sem nemur því sem þeir höfðu í afslátt af þungaskattinum. En ríkisstjórnin hefur fellt þá tillögu.

Varðandi vegaframkvæmdir, sem ég nefndi áðan, þá eru tengivegir, sveitavegir, margir hverjir ófærir stóran hluta ársins. Fólk hreinlega kemst ekki frá heimili sínu til að sækja sér vinnu. Áfram má halda. Bændur vilja eðli málsins samkvæmt senda unglinga sína í skóla til framhaldsnáms. Þar hefur svokallaður jöfnunarstyrkur til náms, sem stundum er kallaður því ónefni sem ég vil helst ekki nota: dreifbýlisstyrkur, verið veittur mörg ár og hefur minnkað að verðgildi. Það hefur líka íþyngt bændum. Þeir hafa ekki fengið hækkun í því sambandi, virðulegi forseti, til stuðnings fyrir börn bænda þegar þau fara í skóla.

Virðulegi forseti. Ég hef farið í gegnum ýmislegt sem komið hefur upp í umræðunni. Ég tek skýrt fram að niðurstaða mín frá því í sumar, í umræðum um hátt matvælaverð, var sú að það er alls ekki sauðfjárbóndanum að kenna hvað varðar þennan þátt landbúnaðar heldur öðrum aðilum. Það tel ég mér bæði rétt og skylt að segja í umræðu um þennan samning. Það gefst ekki svo oft tækifæri til að ræða þessi mál en ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Ég held að íslensk þjóð sé í mikilli þakkarskuld fyrir að fá þetta frábæra íslenska lambakjöt. Bóndinn fær, eins og ég sagði áður, 310 kr. fyrir kíló af sínu innleggi og það eru aðrir sem búa til það háa matvælaverð sem sannarlega er á Íslandi. Þetta sjáum við þegar við kaupum þetta yndislega og góða kjöt í matinn.