133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:49]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við megum heldur ekki gera kannski of mikið úr verðlagi. Ég segi fyrir mig, mér finnst það mjög flottur og ódýr matur. Ég fer út í Melabúð eða Nóatúnsbúðina mína á Selfossi og kaupi eina lærissneið handa mér og aðra handa konunni og svo er þeim velt upp úr raspi og eggi. Þetta er ódýr og góður matur, 700–800 kr. samanlagt, það er því hægt að gera ýmislegt.

En ég var að biðja hv. þingmann að reikna fyrir mig, af því að hann er reikningsmeistari, en hann vildi ekki verða við því. Ef bóndinn fær 4.700 kr. fyrir skrokkinn hjá sláturleyfishafanum, hvað getur neytandinn grætt á því að versla beint við sláturleyfishafann í staðinn fyrir að sækja þetta allt í smásöluverslunina og fara í þá aðferð sem ég var að segja, gömlu frystikistuna og eiga matinn heima hjá sér?

Ég verð að segja fyrir mig að boðskapur núverandi ríkisstjórnar hefur verið góður. Við vekjum athygli um allan heim fyrir batnandi og einhver bestu lífskjör sem einni þjóð eru búin og við sjáum það í þeim lifnaðarháttum Íslendinga að hér eru góð lífskjör. Við sjáum það almennt, við fylgjumst með börnum okkar sem eru að koma sér fyrir og við sjáum hvernig menn eru athafnasamir og eiga margir mjög gott líf. Baráttan fyrir þá sem eiga erfiðara og standa höllum fæti er eilíf og verður alltaf. En vandamálin eru miklu færri en þau voru fyrir 10 eða 12 árum.

Svo vil ég auðvitað taka undir það með hv. þingmanni að salan beint frá býli auðgar landbúnaðinn, færir neytandann nær bóndanum, gefur bóndanum frelsi til að þróa afurðir, gamla góða íslenska matinn, framleiða úr náttúru sinni, gera hina og þessa hluti. Þar eru góðir hlutir að gerast í dag og hafa verið að gerast núna á síðustu árum. Bændurnir hafa opnað augun fyrir þessu og ég hef stutt þá í því.