133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:55]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að halda nokkuð yfirgripsmikla ræðu en ég sé að vegna áríðandi fundar mun hún ekki verða löng. Þess vegna ætla ég að taka upp þráðinn þar sem þeir skildu við hann, hv. þm. Kristján Möller og hæstv. landbúnaðarráðherra, um það hvernig skattbyrði hefði þróast, m.a. á lágtekjufólk hér á landi. Til skamms tíma hafa sauðfjárbændur ekki verið hátekjufólk í þjóðfélaginu þó að vissulega hafi hagur þeirra kannski eitthvað vænkast á undanförnum árum og ég fagna því.

Það er einfaldlega þannig, til að upplýsa hæstv. landbúnaðarráðherra, að um það bil 20 þúsund Íslendingar greiða tekjuskatt af árstekjum sem eru á bilinu 1,5–2 millj. kr. Því miður hafa margir sauðfjárbændur á undanförnum árum verið með þær rauntekjur eftir að búið er að reikna kostnað við búið og búreksturinn.

Vegna þróunar persónuafsláttarins hafa fleiri í lágtekjuhópunum farið að greiða skatta. Um þetta held ég að sé ekki deilt. Menn geta deilt um hversu mikill persónuafslátturinn hefur þá hækkað og þar af leiðandi skattleysismörkin en ég held að ekki sé deilt um að skattgreiðendum hefur fjölgað, hæstv. forseti, í lágtekjuhópunum. Ekki var á það bætandi að slík þróun yrði hér á landi, enda vilja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar ekki kannast við að slík þróun hafi átt sér stað, en það er samt sem áður staðreynd og má lesa það út úr tölum, m.a. þeim tölum sem fjármálaráðuneytið dreifði fyrir síðustu áramót þegar við vorum að fara yfir fjárlögin og breytingar á skattastefnunni. Nóg um það í bili, hæstv. forseti.

Ég ætla í örstuttu máli að víkja að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Gengur yfirleitt undir nafninu búvörusamningurinn og sem snýr að því að bændur eigi rétt á að fá ákveðnar greiðslur, svokallaðar beingreiðslur, m.a. frá ríkinu. Reyndar hefur á seinni árum þó nokkur hluti þess styrks sem ríkið hefur greitt til sauðfjárbænda og framleiðslu þeirra farið yfir í það að færast yfir í hluta af grænum greiðslum, yfir í gæðastýringarátak o.s.frv. Ég held að flestir hafi verið jákvæðir fyrir þeirri þróun að binda ekki allar greiðslurnar beinlínis við það að bændur framleiði ákveðið magn eða kíló af sauðfjárafurðum þó að það sé samt meginleiðin í gegnum heildarbeingreiðslumarkið til sauðfjárbænda.

Almennt um þetta mál vil ég segja, hæstv. forseti, að ég tel það mikils virði fyrir íslensku þjóðina, ekki bara fyrir bændur heldur fyrir íslensku þjóðina að halda landinu í byggð, og að það verði mikils virði í framtíðinni að landið verði sem víðast byggt, m.a. með tilliti til þess að væntanlega mun ferðamönnum halda áfram að fjölga á komandi árum og áratugum og ekki ólíklegt að innan ekki mjög margra ára muni jafnvel ein milljón ferðamanna koma á hverju einasta ári, hæstv. forseti. Þeir vilja að sjálfsögðu sjá lífið í landinu, þar með landnýtingu okkar. Náttúrusjónarmiðunum vex fiskur um hrygg og bændur hafa í gegnum árin verið framarlega í því að nýta landið og viðhalda því. Ég tel að það sé mjög jákvætt fyrir framtíðina að byggðin haldi velli sem víðast og menn nýti landið og framleiði á því góða og heilnæma vöru, sem sauðfjárbændur gera vissulega. Framleiðsla á kindakjöti á undanförnum árum hefur notið markaðshylli landsmanna þrátt fyrir að menn hafi deilt um það að verðið á kindakjötinu væri hátt. En það er ekkert endilega hátt til bænda, þ.e. það hlutfall sem bændur fá af framleiðslunni. Það fer mikið í svokallaða milliliði, bæði í sláturkostnað og dreifingarkostnað og einnig fer mikið af verðmynduninni fram við álagningu verslana á afurðir bænda við smásöluna. Bændur eru því ekki of haldnir af sínu, eins og ég gat um í upphafi máls míns, hæstv. forseti. Þess vegna er það svo að við teljum í Frjálslynda flokknum að viðhalda eigi greiðslum til bænda, m.a. með þeim aðferðum sem hér eru lagðar til og að reyna eigi að treysta og viðhalda byggð í landinu.

Hæstv. forseti. Í Norðvestur- og Norðausturkjördæmunum, hinum stóru landsbyggðarkjördæmum, er framleitt 75% af allri framleiðslu kindakjöts. Þetta skiptir mjög miklu máli fyrir hinar dreifðu byggðir og að viðhalda því að byggðin haldi velli í landinu. Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti. Ég tel að mikið sé á okkur leggjandi, íslensku þjóðina, fyrir framtíðina að viðhalda byggðinni og treysta það að við nýtum landið og framleiðum af landinu því að innan einhverra áratuga, hæstv. forseti, mun eðlilega koma upp krafan um það að ef við nýtum ekki landið okkar sjálf muni aðrir nýta það. Við fáum ekki ein og sér að búa hér í landinu og nýta ekki kosti landsins. Þetta held ég að allir viti og ég tel að hæstv. landbúnaðarráðherra sé algerlega sammála mér um þetta, að til þessa verðum við að horfa inn í framtíðina og ég tel að það sé ekki stórum fjármunum fórnað til að viðhalda byggð í landinu og treysta þá framleiðslu sem við viljum hafa í landinu, þ.e. góða og heilbrigða vöru til framtíðar, ásamt því að halda landinu í byggð, sem mun gera landið mun verðmætara í framtíðinni bæði sem ferðamannaland og land til að búa í.

Þess vegna er það svo, hæstv. forseti, að við styðjum frumvarp það sem hér er og væntum þess að í því felist nokkur festa fyrir bændur. Það segir auðvitað ekki að við viljum ekki stuðla að lægra matarverði til neytenda, en það þarf að gera allt í skynsamlegum skrefum og vinna þau mál fram á við í sátt við bændur og í sátt við neytendur og einkum í sátt við það að viðhalda landinu í byggð, sem ég tel að sé langmesta málið fyrir framtíðina.