133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[18:02]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér enn einn búvörusamninginn og ég hef verið á móti þeim öllum hingað til og það hefur ekkert breyst. Í Sovétríkjunum gömlu voru tíðkaðar fimm ára áætlanir um alla skapaða hluti. Allt atvinnulíf var njörvað niður í fimm ára áætlunum sem embættismenn við skrifborðin sömdu og framkvæmdu. Hér er um að ræða sex ára áætlun. Ekki veit ég hvort það er meira sovét eða minna. En auðvitað er þetta ekkert annað en sovét.

Ég hef lengi lagt til að beingreiðslurnar yrðu lækkaðar um 1% á ári til þess að bændur fengju einhvers konar merki um að þetta hætti einhvern tíma, þá innan hundrað ára. En það merki hefur ekki komið þannig að þetta er eilíft kerfi.

Þó hafa orðið nokkrar breytingar undanfarið, t.d. var framsal ekki leyft einu sinni, það er leyft núna. En áfram skal vera framleiðslukvöð. Það skal vera sett á 0,6 kind fyrir hvert ærgildi sem þýðir að í landinu öllu eru settar á 210 þús. kindur minnst, samkvæmt þessum samningi. (Landbrh.: Það er lágmark.) Það er lágmark.

Það er sem sagt framleiðsluhvati og nauð í þessu frumvarpi. Bændur skulu framleiða til að fá beingreiðslurnar. Ég hefði talið eðlilegt að þeir fengju bara beingreiðslurnar sisvona og þyrftu ekkert að framleiða. Þá gætu aðrir bændur sem hefðu hug á því að framleiða og gætu framleitt ódýrt, framleitt meira.

Á landinu eru 1.800 sauðfjárbú og ef við deilum kostnaðinum sem þessi samningur veldur þá eru það um 155 þús. kr. á mánuði á hvern bónda. Og þá eru eftir tekjur af búinu sem sýnir það, af því að bændur eru ekki tekjuhæsta stéttin í landinu, að hugsanlega framleiða þeir minna en ekki neitt. Þvílík er staðan.

Frú forseti. Það eru viss teikn á lofti sem vekja vonir. Það er t.d. sú staða að í mjólkuriðnaðinum er búið að stofna Mjólku, sem er ákveðin uppreisn gegn þessu staðnaða kerfi sem hefur haldið landbúnaðinum í heljargreipum í hálfa öld, a.m.k., ef ekki nánast í heila öld. Þar er ákveðin uppreisn í gangi og ég vonast til og bíð eftir því að svipuð uppreisn verði hjá sauðfjárbændum, að þeir fari að framleiða og segi að þeir vilji ekki falla undir þetta kerfi. Ég hef nefnilega mikla trú á bændum. Mjög mikla trú á þeim. Ég held að þeir gætu alveg staðið sig í samkeppni og án svona niðurnjörvandi kerfis. Það er kerfið sem skaðar bændur.

Og hvað gerðist, frú forseti, þegar við lögðum niður Lánasjóð landbúnaðarins? Þá lækkuðu vextir til bænda. Þeir lækkuðu og þeir fengu nóg af lánum. Og jarðarverðið stórhækkaði. (Gripið fram í: Út af lánasjóðnum?) Hugsanlega út af því já, en kannski út af jarðarlögunum sem hv. landbúnaðarnefnd breytti mjög verulega. En það er hækkun á jörðunum sem hefur sennilega bætt stöðu bænda langmest af öllu, þeir eru komnir með sjálfstraust núna, sem betur fer.

Svo getur maður velt því fyrir sér hvort svona samningur og svona lagasetning sé ekki í rauninni fjárlög til langs tíma og það sé tekið fram fyrir hendurnar á væntanlegum þingum varðandi fjárveitingar. Því þeir geta varla bakkað út úr þessu.

Frú forseti. Ég hef mjög margar efasemdir um þennan samning. Ég held að hann sé slæmur fyrir bændur vegna þess hvað hann er niðurnjörvandi og hamlandi. Ég held að hann sé slæmur fyrir skattgreiðendur vegna þess að þeir þurfa að borga mikið fé fyrir hann og ég held að hann sé slæmur fyrir neytendur vegna þess að þeir borga allt of hátt verð vegna þess að það er engin samkeppni í landbúnaði og bændur eru ekki hvattir til að stunda hagkvæman rekstur.