133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[18:30]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp og framkvæmd þeirrar löggjafar sem hér er verið að leggja drög að gæti leitt til þess og gæti auðveldað skipafélögunum að stunda svokallaðar strandsiglingar. Það fer ekkert á milli mála. Það er m.a. þess vegna sem við viljum fara þessa leið til að hvetja og ýta undir siglingar með ströndum og milli landa að sjálfsögðu og gera það hagkvæmara. Það er rétt athugað hjá hv. þingmanni að þessi löggjöf gæti leitt til þess að fleiri skipafélög legðu áherslu á siglingar við ströndina eða réttara sagt að þau tækju þær upp með öðrum hætti en er í dag. Það er á margt að líta í þessu efni.

Ég tel að það sé af hinu góða að ýta undir þessa starfsemi, skipaútgerð af hálfu Íslendinga. Það kveður stundum við svolítið sérstakan tón þegar Samtök verslunar og þjónustu sem vinna fyrir kaupskipaútgerðina leita eftir samstarfi og samvinnu við samgönguráðuneytið vegna málefna sem lúta að skipaútgerð og það er gert fyrir fyrirtæki sem eiga engin skip. Strangt til tekið hefur því ekki verið um neitt slíkt að ræða milli samgönguráðuneytisins og Samtaka verslunar og þjónustu vegna þess að íslensk kaupskipaútgerð er ekki til. En þetta frumvarp er til þess gert að ýta undir starfsemi á vegum íslenskra fyrirtækja á vettvangi kaupskipaútgerðar og ég er alveg sannfærður um að ef vel tekst til með framkvæmdina mun það ýta undir kaupskipaútgerð frá Íslandi.