133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[18:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég játast undir það að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson þekkir þessi mál enn betur en ég og einmitt það sem hv. þingmaður nefndi, að Alþjóðaflutningaverkamannasambandið hefur kappkostað að reyna að fylgja því eftir að ekki verði brotið á sjómönnum með þessum hætti, að eingöngu séu kjarasamningar á milli útgerðar og starfsmanna í gildi, og þegar ekki væru í gildi kjarasamningar milli stéttarfélaga þá kæmi Alþjóðaflutningaverkamannasambandið að.

Ég vil bara spyrja hv. þingmann: Er nokkur ástæða fyrir því að hafa þetta inni? Eigum við að bjóða svona deilumáli heim með því að hafa það inni að útgerðirnar geti samið beint? Er það ekki bara lögbrot í sjálfu sér? Er það ekki brot á lögum Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins að útgerðin geti samið beint við starfsmenn? Við þekkjum húsbóndavald útgerðanna. Það er ekki sterk réttarstaða sem sjómaður hefur ef hann hefur hvorki stéttarfélag né önnur samtök á bak við sig varðandi ráðningarsamning. Þá er náttúrlega hægt að láta hann hlíta afarkostum. Hann hefur ekki tök á að mótmæla því þá verður hann bara sviptur starfinu.