133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[19:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ráðherra hefur ekki hlustað á þegar ég var að hæla ráðherranum fyrir að koma fram með frumvarpið. Við erum búin að bíða eftir frumvarpi í þessa veru allt þetta kjörtímabil eins og hæstv. ráðherra veit og málið hefur ítrekað verið tekið hér upp á Alþingi og spurt hvar það stæði og alltaf verið fátt um svör. Það hefur ítrekað verið flutt þingsályktunartillaga um strandsiglingar og þá hefur líka verið fátt um svör. Þess vegna er það fagnaðarefni, eins og ég sagði í ræðu minni, að þetta frumvarp skuli komið fram og ég hef meira að segja verið að hæla ráðherra fyrir það og mun gera það og sérstaklega ef þessu frumvarpi verður nú breytt eða sniðnir af því þeir agnúar sem mér sýnist að þurfi að gera.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Eru það ekki mistök að hafa sett þetta inn í textann að útgerðin geti samið beint við starfsmenn? Það kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að það er þá Alþjóðaflutningaverkamannasambandið sem gerir líka samninga en er ekki hlynnt því að þetta sé með þeim hætti að gerðir séu einhliða samningar á milli útgerðar og einstaklings.

Eins varpa ég því fram hvernig það hafi verið með sænsku leiðina sem var nefnd hér eða írsku leiðina. Ég man eftir að við áttum fund saman, fulltrúar samgönguráðuneytisins, fulltrúar fjármálaráðuneytisins og samgöngunefnd um möguleika á að taka upp eins konar alþjóðlega skipaskrá þar sem leið Svía var notuð, en það kemur fram að þeir hafi náð mjög góðum árangri, þar var einmitt lögð áhersla á að sjómennirnir væru undir einum kjarasamningi og nytu réttinda sem slíkir, en hins vegar var endurgreiðsluform eða einhverjar aðrar leiðir til þess að tryggja samkeppnisstöðu útgerðarinnar. (Forseti hringir.) Ég tel að samgöngunefndin muni skoða þessi mál í heild sinni, frú forseti.