133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[19:07]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mig rak bara alveg í rogastans þegar ég sá þetta frumvarp og gladdist mjög því að hér er loksins að koma í ljós frumvarp um málefni sem staðið hefur um áralöng barátta bæði samtaka sjómanna og eins þingmanna Samfylkingarinnar og reyndar fleiri hér í þingsal Alþingis og í samgöngunefnd.

Alþjóðleg skipaskrá var lengst af ekki hluti af mínum hversdagsveruleika, frú forseti, en strax og ég tók sæti í samgöngunefnd fyrir tveim árum fór þetta mál að skjóta upp kollinum og í hvert sinn sem sjómenn eða talsmenn sjómanna komu á fund nefndarinnar bar þetta mál á góma, því eins og komið hefur fram í máli manna er þetta ákaflega mikilvægt málefni fyrir okkur. Það er dapurlegt að málum skuli hafa verið komið þannig að ekkert eða hugsanlega eitt skip hafi verið skráð undir íslenskum fána, öll skip skuli vera komin í skráningu hjá nágrannalöndum okkar sem hafa fyrir mörgum árum gengið í það verk sem loksins er verið að ganga í hér. Og það er svo seint á starfsdögum þingsins að ég efast um að það geti náð fram að ganga, því miður, virðulegi forseti, því að ég get ekki séð að það sé tími til að senda þetta mál út til umsagnar. Hugsanlega vinnst tími til að fá menn á fund nefndarinnar með umsagnir en þetta er auðvitað allt of seint á ferðinni eins og reyndar ýmislegt fleira sem kemur frá ríkisstjórninni þessa dagana.

Í máli gesta sem komið hafa á fund samgöngunefndar hafa komið fram ýmsir vankantar sem fylgja því að skip eru ekki skráð á Íslandi, skip sem eru í eigu Íslendinga, með íslenskri áhöfn að hluta til í flestum tilfellum og yfirstjórnendur yfirleitt alltaf Íslendingar. Til dæmis greiða viðkomandi að sjálfsögðu ekki skatt til Íslands en fjölskyldurnar eru eftir sem áður hér, börn í skóla o.s.frv., sem þýðir að það þarf að ganga í ýmsar erfiðar samningaviðræður til að koma þeim málum á hreint.

Síðan er það auðvitað hluti af sjálfsmynd þjóðar, ekki satt, að hafa bæði flugvélar og skip undir okkar eigin þjóðfána, þau skip sem Íslendingar eiga, eins og ég sagði áðan, en hafa ekki treyst sér til að skrá hér vegna þess að hér hafa þeim verið boðin svo miklu verri kjör en annars staðar tíðkast.

Það vill svo til, frú forseti, að um síðustu páska var ég stödd á Kúbu ásamt manni mínum og dóttur og við fórum að skoða gamlan kastala sem er við innsiglinguna á Kúbu. (GHall: Morro kastali.) Já, og þar kölluðu hafnarverðirnir á okkur og fóru að sýna okkur aðstöðu sína sem var fróðleg. Þar drógu þeir fram úr pússi sínu íslenskan fána sem hafði aldrei verið notaður vegna þess að þeir flagga fánum viðkomandi þjóðlanda þegar skip siglir inn en það hafði aldrei komið íslenskt skip undir íslenskum fána skráð á Íslandi í höfn á Kúbu. Ég sagði við mennina að ég vonaðist til að það gerðist fyrr en síðar, áttaði mig svo á því þegar við höfðum kvaðst — og hefði nú örugglega ekki sagt þeim frá því þótt ég hefði áttað mig á því nógu snemma, því að mér fannst það nú og finnst skammarlegt, að við þurfum að skrá skipin okkar annars staðar, að það var ekki til að tjalda neinum skipum sem sigldu undir íslenskum fána þannig að það var ekki von að þau hefðu komið í höfn á Kúbu.

Nú hillir undir það, frú forseti, að íslensk skip geti siglt undir íslenskum fána og það finnst mér virkilega ánægjulegt því eins og ég sagði áðan fylgja því ýmsir vankantar að hafa skipin ekki skráð hér. Ég gleymdi að telja upp eitt sem er mjög ofarlega í hugum þeirra sjómanna sem hafa komið á fund samgöngunefndar en það eru einmitt menntunarmál sjómanna. Þeir telja að með því að hér væru ekki skráð skip væri mjög líklegt að menntunarmálum sjómanna mundi hraka. Það væri ekki eins mikil hvatning fyrir sjómenn að mennta sig til starfa á íslenskum farskipum ef þau gætu ekki verið skráð hér og starfsmenn þar með heimilisfesti á Íslandi.

Þetta er fagnaðarefni og aðeins vont að þetta skuli ekki hafa komið fyrr fram þannig að við hefðum getað unnið að málinu vel og vandlega, en ég á frekar erfitt með að sjá að það sé hægt úr þessu, frú forseti, en vona þó hið besta.