133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[19:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek afdráttarlaust undir þau orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar um hversu brýnt er að við getum komið á viðunandi kerfi þannig að kaupskipin sjái sér hag í að eiga heimili á Íslandi og að íslenskt kaupskip sigli á ný undir íslenskum fána þó að þau hafi hrakist burt eða talið sér betur borgið annars staðar. Ég minni á, eins og stendur í umsögn sem ég vitnaði í áðan, að í öðrum löndum, t.d. Noregi, Danmörku og Svíþjóð, eru siglingar blómstrandi útflutningsatvinnuvegur og eru í tveimur þeirra í öðru og þriðja sæti hvað varðar gjaldeyristekjur. Það eru því gríðarlegir hagsmunir sem þarna eru í húfi.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé tilvinnandi að setja þannig lagagrunn hér á landi að sjómenn sem starfa á þessum skipum séu bæði með laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum og njóti réttinda sem íslenskir kjarasamningar veita, lífeyrissjóðsréttindi og önnur veikinda- og starfsmannaréttindi sem hefur verið baráttumál á undanförnum áratugum og eru í rauninni grunnur íslensks velferðarkerfis, kjarabarátta sem hefur skilað sér í launajafnrétti og launakjörum, en að fundin verði einhver önnur leið til að greiða fyrir þessu, einhver jöfnunarleið, einhver niðurgreiðsluleið eins og bent er hér á. Til dæmis er bent á það í umsögn Vélstjórafélagsins að niðurgreiða síðan laun sjómanna til útgerðarinnar þannig að hún verði samkeppnishæf en að sjómennirnir sem slíkir njóti réttindanna og kjaranna